Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 17:23:08 (3392)


[17:23]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég lít ekki á það sem mistök af minni hálfu að tala eins og mér býr í brjósti í þessum ræðustól. Mér er alveg sama hvort að menn hafi komist að einhverri annarri niðurstöðu úti í bæ um það hvernig þessi mál snúa. En hvernig stendur á því að hæstv. sjútvrh. hefur staðið að setningu bráðabirgðalaga sem ganga út á það að stofna einhvers konar nefnd ráðuneytisstjóra úti í bæ sem síðan kemur með tillögur um nokkrar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða til þess að leysa þessa vinnudeilu? A.m.k. er það yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að leysa vinnudeiluna með því að breyta lögunum um stjórn fiskveiða. Hafa menn þá ekki komist að þeirri niðurstöðu, sem ég var að tala um áðan, að vitanlega var þetta krafa um stefnubreytingu, krafa um að ríkisstjórnin beitti sér fyrir breytingum á lögunum um stjórn fiskveiða og breytti fyrirætlunum sínum um lagasetningu í þessu efni sem hér liggur fyrir þinginu? Þetta er allt saman hér skjalfest. Og um hvað eru menn þá að deila?