Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 18:04:40 (3395)


[18:04]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Umræður um þetta frv. sem hér liggur fyrir um stöðvun verkfalls fiskimanna hafa einkum verið tvíþættar. Í fyrsta lagi um að nota þá aðferð að gefa út bráðabirgðalög við þær aðstæður sem ríktu og svo í öðru lagi um efni laganna.
    Mér fannst þegar Alþingi var frestað fyrir jólin og ákveðið að það kæmi ekki saman fyrr en í síðasta lagi 24. jan. þá væri það ákaflega ótrúlegt að í þessu hléi yrði farið að gefa út bráðabirgðalög í deilu sjómanna þrátt fyrir að forsrh. færðist undan að gefa yfirlýsingu um það. Það hefur verið bent á það hér að til þess að kalla saman Alþingi þarf ekki nema nokkurra klukkutíma fyrirvara og því er það auðvelt. Það lágu fyrir yfirlýsingar eða krafa frá þingflokkum stjórnarandstöðunnar um að Alþingi kæmi saman og jafnframt lá í loftinu að það tæki ekki langan tíma að afgreiða mál ef ríkisstjórn vildi leggja það fyrir þingið. Það hafa komið fram yfirlýsingar um það síðar.
    Hv. 16. þm. Reykv., Guðmundur Hallvarðsson, lét í ljós undrun sína á því að stjórnarandstaðan skyldi lýsa því yfir að ef ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að leggja slíkt frv. fyrir Alþingi þá hefði náðst samstaða um að afgreiða það á skömmum tíma og það tákni því stuðning við efnisþætti frv. að gefa slíka yfirlýsingu. Ég held að okkur sé öllum ljóst að um leið og ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um að leggja slíkt frv. fyrir Alþingi þá er þar með útilokað að deiluaðilar nái neinu samkomulagi. Sá tími sem líður eftir að slík ákvörðun hefur verið tekin og opinberuð fer því til einskis þannig að það er ekki eftir

neinu að bíða með að málið verði afgreitt og væntanlega samþykkt. En ef ekki er meiri hluti fyrir því á Alþingi þá fáist úr því skorið með því að það komi þá í ljós í atkvæðagreiðslu.
    Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt við þessa málsmeðferð hæstv. ríkisstjórnar er að það virðist nokkurn veginn augljóst, og hefur komið fram af yfirlýsingum einstakra stjórnarþingmanna, að það hafi ekki verið leitað eftir því við alla þingmenn stjórnarandstöðunnar hvort þeir muni styðja þetta frv. Mér fannst athyglisvert að það sem skýrast var í máli hv. 16. þm. Reykv. hér áðan var að þetta inngrip sem gert væri með þessari lagasetningu væri ekki eðlilegt og ekki ásættanlegt. Að vísu vildi hann ekki segja hvernig hann mundi greiða atkvæði við afgreiðslu málsins en þessi orð hans segja samt nokkuð mikið.
    Það er ekki aðeins að það sé ljóst að samningar muni ekki nást milli deiluaðila þegar ríkisstjórnin hefur opinberað að hún ætli að leggja fram frv. sem bannar vinnudeiluna, það nægir að sjálfsögðu ef ráðherrar, ég tala nú ekki um ef hæstv. forsrh. gefur yfirlýsingar sem hægt er að skilja á þann veg að bráðabirgðalögum eða lagasetningu verði beitt.
    Hv. 8. þm. Reykn. var það glöggskyggn á ræðu hæstv. forsrh. um áramótin, að hann taldi að þar hefði komið fram alveg ótvíræð yfirlýsing um að lagasetningu yrði beitt. Ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki gert mér grein fyrir því. Hins vegar var í orðum hæstv. forsrh. síðar augljóst að að því stefndi, þegar hann fór að tala um að lagasetning kæmi vel til greina. Þannig að ég held að það sé varla hægt að lýsa betur aðdragandanum að þessari stöðu heldur en hv. 8. þm. Reykn. gerði og þá um leið hvað felst í orðum hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, þegar hann segir: ,,Eins og staðan var orðin þá tel ég nauðsynlegt að fara í lagasetningu.`` Þegar það lá orðið fyrir, vegna orða hæstv. forsrh., að deilunni yrði lokið með löggjöf og þá voru samningsaðilar hættir að talast við. Við þær aðstæður var auðvitað ekki eftir neinu að bíða. En eftir sem áður er það vitanlega ámælisvert að það skyldi ekki vera gert á þann hátt að kalla Alþingi saman.
    Síðan er það efnishliðin. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ákaflega furðulegt að það skuli þurfa að setja bráðabirgðalög til að lögbinda 1. gr. þessa frv. Ég vil lesa hana þó það hafi kannski verið gert hér áður í umræðunni, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sjávarútvegsráðherra skal skipa nefnd þriggja manna. Nefndin skal gera tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir að viðskipti með aflaheimildir hafi óeðlileg áhrif á skiptakjör og undirbúa nauðsynlega löggjöf í þeim efnum. Nefndin skal skila tillögum sínum sem fyrst og eigi síðar en 1. febrúar 1994.``
    Hver bannar hæstv. sjútvrh. að skipa þriggja manna nefnd til þess að gera einhverjar tillögur sem á að skila fyrir ákveðinn tíma? Ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. geti fundið einhverja þrjá menn sem hann geti falið að gera tillögur fyrir 1. febrúar án þess að það sé sett í lög. Þannig að ef þetta er aðalatriði frv., sem felst nú gjarnan í 1. gr., þá er ég hættur að skilja þörfina fyrir útgáfu bráðabirgðalaga. Og ef efni þessarar greinar, þ.e. þessi nefndarskipun, hefði nægt til þess að leysa deiluna, þá er það sem sagt enn þá meiri spurning í mínum huga, af hverju þurfti bráðabirgðalög? En það sem kannski fyrst og fremst vaknar í huga manns er spurningin: Af hverju var hæstv. sjútvrh. ekki búinn að setja þessa nefnd á fót fyrir löngu síðan til þess að málið þyrfti ekki að fara í þennan hnút?
    Vegna þessa dráttar er skiljanleg sú harða gagnrýni sem kom fram í máli hv. 16. þm. Reykv. hér áðan á hæstv. sjútvrh. Hann kom með hvítbók ríkisstjórnarinnar og las upp úr henni stefnu og markmið í sjávarútvegsmálum. Hv. þm. sagði að það væri ástæða fyrir ríkisstjórnina að fara nú að framkvæma þegar liðið væri hátt á þriðja ár frá því að þessi orð voru sett á blað. Enn fremur sagði hv. þm. að það væru næg verkefni fyrir ríkisstjórnina að taka til hendinni. Af hverju flutti hv. 16. þm. Reykv. ekki fyrr þessa ræðu sína hér til þess að benda hæstv. ríkisstjórn á að hún þyrfti að taka til hendinni til þess að málin færu ekki í þennan hnút?
    Það er því miður sannleikur í þessu máli, sem ég held að hafi komið skýrt fram í þessum umræðum, að það er aðgerðaleysi hæstv. ríkisstjórnar sem hefur komið málinu í þennan hnút. Allt frá því að núv. hæstv. ríkisstjórn var mynduð hafa ekki átt sér stað viðræður milli hæstv. ríkisstjórnar og hagsmunaaðila. Það hefur oft komið hér fram áður í umræðum að í staðinn fyrir að leita eftir samráði bæði við hagsmunaaðilana og stjórnarandstöðu, þá var skipuð tvíhöfða nefndin fræga sem lokaði sig af og formennirnir fóru að kynna sér málið. Annar þeirra, Þröstur Ólafsson, hefur lýst þeirri vinnu sinni, sem ég held að hafi tekið upp undir tvö ár, eitthvað á þá leið, að hann hafi farið í þessa nefnd og tekið að sér annað höfuðið í henni til þess að ganga af kvótakerfinu dauðu. En svo hafi hann farið að læra og læra og læra og út úr þeim lærdómi öllum kom að það ætti að halda því áfram.
    Það er dýrt spaug fyrir íslenskan sjávarútveg að eyða þannig tímanum í námskeið fyrir aðila sem virðast ekki hafa vitað um hvað þeir voru að tala um áður en þeir tóku til þessara starfa. ( ÓÞÞ: Þröstur hefur nú gott af að læra svolítið.) Það getur vel verið. En eins og ég segi, það er dýrt spaug fyrir sjávarútveg og fyrir íslensku þjóðina þegar það endar síðan með þeim ósköpum sem gerðust svo nú í haust, þegar þolinmæðin er þrotin hjá hagsmunaaðilum og þeir sjá að ekkert kemur bitastætt út úr hlutunum.
    Hins vegar fannst mér það ákaflega athyglisvert að heyra það á útgerðarstöðum að vilji til samkomulags í þessu máli milli útgerðar og sjómanna víða væri mikill. Það hefði ekki borið svo mikið á milli víða til þess að samkomulag tækist. Og að því leyti eða með það í huga, þá er þessi gjörningur líka vafasamur sem við erum hér að fjalla um. En málsmeðferð öll virðist mér harla vafasöm og ekki traustvekjandi og ekki unnt að lýsa yfir stuðningi við.