Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 18:22:54 (3397)


[18:22]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 16. þm. Reykv. fyrir orð hans hér áðan því hann sagði að 24. apríl 1992 hefðu útgerðarmenn og sjómenn birt sameiginlega yfirlýsingu sem var samkomulagsgrundvöllur. En af hverju var þá ekki gengið þannig frá málum að þetta héldi betur? Er þetta ekki nokkuð hörð ásökun á hæstv. sjútvrh., að eftir hér um bil tvö ár skuli þetta samt enn þá svífa í lausu lofti, þrátt fyrir þessa yfirlýsingu? Hefði ekki þurft að ganga þannig frá því þá í lagasetningu að ekki færi þar neitt á milli mála? Ég held að þetta undirstriki enn þá það sem ég sagði um það að ræða hv. 16. þm. Reykv. var mjög hörð árás á hæstv. sjútvrh. Hv. þm. minntist hér á fiskmarkaðina. Hann veit það sjálfsagt mætavel að þeir voru settir á stofn í tíð hæstv. fyrrv. sjútvrh., Halldórs Ásgrímssonar. En það er kannski alveg rétt hjá hv. þm. að þróun þeirra hafi síðan staðnað síðustu þrjú árin.