Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 19:01:33 (3409)

[19:01]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (um fundarstjórn) :
    Frú forseti. Ég vil ítreka þá skoðun mína að sú umræða sem hér fer fram á ekkert skylt við fundarstjórn og hefði þess vegna verið fullkomlega óeðlilegt að leyfa hana í upphafi á þeirri forsendu. En ég vil endurtaka það að ríkisstjórn sem gefur út bráðabirgðalög þarf ekki samkvæmt skilyrðum stjórnarskrárinnar að ganga fyrir fram úr skugga um að hún hafi þingmeirihluta. Hún setur hins vegar ekki bráðabirgðalögin nema hún hafi ástæðu til að ætla að sá þingmeirihluti sé fyrir hendi. Ég hygg að hæstv. forsrh. hafi í einu og öllu farið að réttum lögum í þessu efni og þess vegna algjörlega ástæðulaust að gera þær athugasemdir sem hv. 8. þm. Reykn. hefur gert hér af þessu tilefni og því fer víðs fjarri að hér sé með einhverjum hætti brotið í blað í þessu efni. Það kann að vera að einstakir þingflokkar hafi haft mismunandi hátt á þegar bráðabirgðalagasetningu hefur borið að.
    Varðandi þá ósk sem hér hefur verið borin fram af tveimur hv. þm., 8. þm. Reykn. og 6. þm. Norðurl. e., um að fresta fundinum, þá sé ég ekki nokkra ástæðu til þess. Hér eru hv. þm. á mælendaskrá og ekkert hefur verið gefið til kynna um það að þessari umræðu sé að ljúka. Ég tel fyllilega eðlilegt að henni sé haldið áfram með venjulegum hætti og engin ástæða af því tilefni sem hér hefur verið gefið að fresta umræðum. Ég tel þvert á móti ástæðu til þess að halda þeim áfram og leyfa þeim hv. þm. sem kvatt hafa sér hljóðs að tala og koma sínum sjónarmiðum á framfæri í þessari umræðu eins og þingsköp gera ráð fyrir og engin ástæða til þess að tefja það að þeir fái að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.