Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 19:13:07 (3417)


[19:13]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þetta síðasta fasta skot hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar á samstarfsflokkinn, Sjálfstfl., þar sem hann lýsti því yfir að að sjálfsögðu væri haft samstarf við alla þingmenn í Alþfl. gerir það enn brýnna að kalla til þá þingmenn Sjálfstfl. sem hér hafa verið nefndir.
    Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs um stjórn forseta núna út af þessu atriði. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi orðið mistök hjá starfsmönnum þingsins í dag. Mér þykir það að vísu afar ólíklegt því að starfsmenn þingsins þekki ég að afar vönduðum vinnubrögðum, en það lítur út fyrir að frv., sem þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar boðuðu að yrði lagt fram á Alþingi í dag um breytingar á búvörulögum, hafi einhvers staðar glatast. Ég hef verið að leita að því á borði mínu og hef reyndar verið að spyrja aðra þingmenn eftir því en frv. er hvergi. Þótt ég viti að oft sé unnið lengi í ráðuneytunum, þá reikna ég með að þar sé vinnudeginum lokið og vil því biðja virðulegan forseta að ganga úr skugga um hvort það geti verið svo að þetta frv. liggi hér einhvers staðar og hafi gleymst að dreifa því. Því ekki dettur mér það í hug eftir að ekki færri en þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar lýstu því yfir hér í gær að um þetta mál væri alger samstaða og búið að kynna frv. í þingflokkum stjórnarflokkanna og það ætti að dreifa því í dag að eitthvað hafi komið upp á á stjórnarheimilinu sem gerir það að verkum að frv. sé ekki komið fram. (Gripið fram í. ) Eða prentsmiðja hafi bilað. --- Nei, ég hef ekki trú á því. Ég verð því að biðja virðulegan forseta að kanna þetta og það liggi þá alveg ljóst fyrir þegar fundur byrjar aftur í kvöld hvar frv. hefur týnst.