Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:37:55 (3422)


[20:37]
     Geir H. Haarde (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Það væri vissulega munur ef hér væri verið að ræða um fundarstjórn forseta. Það er að sjálfsögðu ekki. Og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talar úr glerhúsi þegar hann gagnrýnir setningu bráðabirgðalaga eins og að þeim var oft staðið þegar hann sat í ríkisstjórn. Ég held ég þurfi ekki að fara frekar út í slíkan samanburð eða þá sálma.
    Staðreynd málsins er sú að það er ekki stjórnarskrárbundin skylda að hafa samband við alla þingmenn í stjórnarmeirihluta og hv. þm. þarf ekki annað en fletta upp í fræðiritum til þess að kynna sér þá staðreynd. Hitt er annað mál að í tengslum við þetta mál hafði forsrh. samband við mig sem formann þingflokksins og tjáði mér hvað stæði fyrir dyrum. Ég innti hann ekkert eftir því hverja fleiri hann hefði talað við og mér er ekki kunnugt um hvað fór á milli hans og forseta lýðveldisins. Það eru einkasamtöl þeirra í milli og væntanlega trúnaðarmál. En ég taldi mig geta fullyrt við forsrh. það sem ég leyfi mér að fullyrða hér og nú að það var þingmeirihluti á bak við þetta og það mun koma í ljós að það er þingmeirihluti á bak við þessi bráðabirgðalög.
    Ég læt mér í léttu rúmi liggja glósur hv. þm. í garð þingmanna Sjálfstfl. út af þessu máli. Hann varðar ekkert um við hverja ég tala í þeim hópi, hvenær ég geri það og um það. Það varðar hv. þm. ekkert um. (ÓRG: Mig varðar um hvort það hefur verið skrökvað að forseta lýðeldisins.) Það hefur ekki verið skrökvað að forseta lýðveldisins. Það er af og frá að halda því fram að forsrh. hafi gert sig sekan um

skrökva að forseta lýðveldisins og það mun bara koma í ljós í atkvæðagreiðslu um þetta mál þegar þar að kemur að það er rétt, sem ég fullyrði, að það er þingmeirihluti á bak við þetta frv.