Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:45:01 (3425)


[20:45]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja umræðu mikið. Það hefur oftsinnis gerst að sett hafi verið bráðabirgðalög án þess að talað hafi verið við þann meiri hluta sem stendur að baki ríkisstjórninni enda ber ekki skylda til þess. Ég man eftir því að í tíð ríkisstjórnar sem þeir hv. þm. sem síðast hafa talað af hálfu stjórnarandstöðunnar studdu var meira að segja reynt að fela einn af þingmönnum hennar úti í Lúxemborg til þess að ekki næðist til hans. ( Gripið fram í: Fela hann?) Fela hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson. (Gripið fram í.) Jafnvel var hægt að fela hann í dvergríkinu Lúxemborg. Ég skil frammíköll hv. frammíkallenda með þeim hætti að þeir vilji síður að það sé verið að rifja þetta upp. ( ÓRG: Jú, jú, alveg sjálfsagt.) En ég ætla að rifja annað upp. Það er að nákvæmlega sama umræða og sú sem nú fer fram fór fram líka þegar sett voru bráðabirgðalög 1992 vegna Kjaradóms. Þá sögðu hv. þm. Stefán Guðmundsson og síðan hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson nákvæmlega sömu setningarnar og nú er verið að fara með. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði þá, með leyfi forseta:,, . . .  eða hvort er verið að ræða bráðabirgðalög sem hafa verið sett með þeim hætti að forseta lýðveldisins hafi ekki verið greint frá því hvort þingflokkar stjórnarflokkanna stæðu á bak við þessi bráðabirgðalög.`` --- Síðu eftir síðu eftir síðu, dálk eftir dálk eftir dálk er síðan fjallað um þessi mál. Það kemur mjög skýrt fram og vitnað í heimildir, það er vitnað í Ólaf Jóhannesson, fyrrv. forsrh., formann Framsfl. og prófessor. Það er vitnað til Gunnars Thoroddsens og það er vitnað í fræðimenn og sagt nákvæmlega það sama og búið er að segja í ræðu eftir ræðu af hálfu stjórnarandstæðinga. Hér er verið að leika nákvæmlega sama leikinn til að geta vikið frá efnisatriðum málsins. Það er aftur og aftur búið að svara þessari fyrirspurn. Það er gert í hvert einasta skipti sem sett eru bráðabirgðalög og það gerist ekki oft nú á tímum. Og það eru fluttar nákvæmlega sömu ræðurnar.
    Maður spyr, virðulegur forseti, og þetta hefur með stjórn þingsins að gera: Er eðlilegt að þingmenn geti í hvert einasta skipti sem upp koma bráðabirgðalög og staðfesting á bráðabirgðalögum flutt sömu ræðurnar og fengið sömu svörin og sömu niðurstöðuna og látið sér ekki segjast þrátt fyrir að allt sem máli skiptir varðandi bráðabirgðalöggjafarréttinn liggi fyrir í einu og öllu. Í öll skiptin hefur það jafnframt gerst að komið hefur skýrt í ljós hver var vilji þingsins um þessi mál.
    Ég er með þrjú hefti af Alþingistíðindum. Í öllum þessum heftum er verið að ræða nákvæmlega sama málið. Hvenær fá þessir menn nóg?