Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 20:48:57 (3427)


[20:48]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. kaus að nota liðinn ,,fundarstjórn forseta`` til að koma upp í ræðustólinn með þrjú hefti af Alþingistíðindum og fara að flytja ásakanir á mig í tilefni af ræðum mínum um allt annað mál á þingi 1992. Hann færði síðan með þeim hætti rök fyrir þeirri skoðun sinni að þær spurningar og óskir sem ég hefði borið fram væru fullkomlega ástæðulausar og í raun og veru valdi hann þeim hin háðulegustu orð.
    Ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á því að eftir að umræðan um bráðabirgðalögin um Kjaradóm hafði farið fram á Alþingi þar sem hæstv. forsrh. vann með nákvæmlega sama hætti, að því er virðist, og í þessu máli að kanna ekki vilja þingmanna Sjálfstfl. þótt það lægi fyrir að það hefðu ráðherrar Alþfl. gert, þá lýsti hæstv. forsrh. því yfir opinberlega að það hefði verið rangt hjá sér að kalla þingið ekki saman. Hann sæi það nú að það hefðu verið mistök að setja bráðabirgðalög. Þar með hefur hæstv. forsrh. viðurkennt það að málflutningur okkar, sem hæstv. fjmrh. var hér að vitna til, var réttur. Þess vegna er þetta dæmi hjá hæstv. fjmrh. og ásakanir í minn garð afar óheppilegar vegna þess að þetta er akkúrat það tilvik þar sem hæstv. forsrh. hefur lýst yfir opinberlega mistökum sínum og viðurkennt þau. Og ég hef í ræðustól hælt honum fyrir það að hafa viðurkennt að honum hafi orðið á mistök að setja bráðabirgðalögin um Kjaradóm. Hann hefði átt að kalla þingið saman.
    Þess vegna var þetta dæmi hæstv. fjmrh. afar óheppilegt og ásakanir hans í minn garð fullkomlega út í hött vegna þess að málflutningur okkar einmitt í því máli hefur sannast. Það er þess vegna, hæstv. fjmrh., sem við erum að segja hér og nú að hæstv. forsrh. á ekki að endurtaka sömu mistökin. Sú kenning formanns þingflokks Sjálfstfl. og hæstv. fjmrh. að forsrh. geti bara talað við tvo þingmenn og sagt forseta lýðveldisins engu að síður að hann hafi ástæðu til að ætla að það sé meiri hluti og svo sé þinginu bara stillt upp eftir á er slík stjórnarfarskenning að hún er stórhættuleg. Menn geta sett bráðabirgðalög t.d. í apríl. Ætli þessu þingi ljúki ekki snemma í apríl og komi ekki aftur saman fyrr en í október. Að beita bráðabirgðalagavaldinu þá með þeim hætti sem hér er lýst og talið fullkomlega eðlilegt er slík stjórnarfarsleg hætta að ég trúi því ekki að forustumenn Sjálfstfl. ætli að vera að verja það sem eðlileg vinnubrögð.
    ( Forseti (SalÞ) : Má ég biðja hv. þm. að bera af sér sakir.)
    Virðulegi forseti. Nú hef ég borið af mér þær sakir sem hæstv. fjmrh. bar hér á mig og minnt hann á þá viðurkenningu sem fólst í yfirlýsingu hæstv. forsrh. um bráðabirgðalögin um Kjaradóm.