Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:01:05 (3434)


[21:01]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Við höfum verið að ræða bráðabirgðalagasetningu í allan dag og það hefur komið fram í þeim umræðum að þingmenn Sjálfstfl. hafa hver á eftir öðrum lýst því yfir að ekki hafi verið haft samráð við þá um þessi lög. Það liggur einnig í augum uppi og það vita allir hv. þm. að samkvæmt stjórnarskránni er hægt að setja bráðabirgðalög án þess að fyrir liggi samþykki þeirra þingmanna sem styðja stjórn hverju sinni a.m.k., svo fyrir liggi þá þingmeirihluti. Hins vegar hefur því jafnframt verið lýst í þessum umræðum að við alla aðra þingmenn annarra flokka hafi alltaf verið haft samráð þegar slíkt stóð til. Sú sem hér stendur getur að vísu ekki lýst því þar sem okkar flokkur hefur aldrei átt aðild að ríkisstjórn en ég er ekki í vafa um að sú vinnuaðferð yrði viðhöfð innan okkar raða ef til kæmi. En ég verð að lýsa því yfir að mér finnst það algjörlega siðlaust að standa þannig að málum þrátt fyrir að ekki sé um það deilt að hægt sé að gera slíka hluti samkvæmt stjórnarskrá.