Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:05:50 (3437)


[21:05]
     Svavar Gestsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. sagði áðan að þau ummæli sem fram höfðu komið að meiri hluti fyrir þessum bráðabirgðalögum hefði e.t.v. verið valtur, væru órökstudd. Þessu ætla ég að vísa á bug. Rökin komu fram í ræðu hæstv. sjútvrh. sem upplýsti að aðeins var haft samband við tvo þingmenn Sjálfstfl., þ.e. hv. þm. Geir Haarde og hv. þm. Matthías Bjarnason. Þannig að rökin liggja fyrir fyrir þeim málflutningi sem ýmsir stjórnarandstæðingar hafa haft uppi í kvöld.
    Mér fannst einnig athyglisvert með hliðsjón af ummælum hv. 8. þm. Reykv. að öðru leyti, að hann sagði: Forsrh. hafði að sjálfsögðu samráð við mig sem formann þingflokks Sjálfstfl. Ég spyr: Hvaða rök eru fyrir því að hafa samráð við þennan þingmann en ekki alla hina? Atkvæði hans er jafnþungt eða jafnlétt þegar kemur til uppgjörs í stjórnarliðinu. Og ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég tel að í þessu máli séu í raun og veru tveir mjög alvarlegir þættir. Sá fyrsti er framkoman við forseta Íslands. Það er mjög alvarlegt mál. Það er grafalvarlegt mál. En hitt er líka alvarlegt að samkvæmt þessum vinnubrögðum, með þessum vinnubrögðum, er þingmönnum Sjálfstfl. sérstaklega stillt upp við vegg og samviskuákvæði stjórnarskrárinnar er þannig í raun að engu gert eða teflt á tæpasta vað með þetta ákvæði. Ég tel þess vegna að hérna hafi menn ekki staðið rétt að málum, fúskað með hluti sem sýnast einfaldir en eru mikilvæg grundvallaratriði þegar upp er staðið. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það sé rangt hjá hæstv. sjútvrh. að það sé einhver aðferð í málinu að knýja hér fram atkvæði og þar með fái menn svör við því hvort menn gerðu rétt eða rangt í upphafi. Það segir ekki neitt af því að þingmenn Sjálfstfl. sem styðja stjórnina munu telja sig nauðbeygða til að tryggja að lögin fari í gegn einmitt núna, m.a. til þess að hylja þau mistök sem hæstv. forsrh. hefur bersýnilega gert sig sekan um í þessu máli. Þannig að hér er auðvitað teflt á svo tæpt vað með samviskuákvæði stjórnarskrárinnar að því er varðar þingmennina, að ég man fá dæmi slíks að það sé í raun og veru sagt við þingmenn: Þið verðið að samþykkja þennan hlut, það er í raun og veru alveg sama hvað ykkur sjálfum finnst. Og það er makalaust að hæstv. sjútvrh. og fyrrv. formaður Sjálfstfl. skuli storka sínum samþingsmönnum með þeim hætti sem hann gerði hér áðan og gera lítið úr þeim í leiðinni.