Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:09:14 (3438)


[21:09]
     Guðmundur Stefánsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Þó að hér séu til umræðu þau bráðabirgðalög sem sett voru þann 14. jan. sl. þá hafa þessar umræður í rauninni deilst í tvo hluta. Annars vegar er setning bráðabirgðalaganna efnislega og um réttmæti þeirrar lagasetningar eru vissulega skiptar skoðanir. Hins vegar er rætt um og einkum hér að undanförnu, síðustu klukkutímana, hvernig að þessu var staðið. Mér virðist eins og ýmsir þingmenn Sjálfstfl. og ráðherrar skilji ekki þann mun sem þarna er á umræðunni og virðast ekki geta viðurkennt að það er venja og hefð, að þegar bráðabirgðalög eru sett er leitað eftir því hvort ekki sé örugglega meiri hluti fyrir þeirri lagasetningu. Þetta hefur greinilega ekki verið gert núna og það er það sem verið er að ræða núna. Núna er ekki verið að ræða um lögin sem slík, heldur hvort rétt hafi verið staðið að þessum málum. Þess vegna finnst mér að það sé ekki í rauninni það sem Geir Haarde, virðulegur þm. Reykv., var að svara hér áðan. Það er ekki verið að spyrja um hvað reynist hér að leikslokum, hvort þessi lög verða samþykkt, heldur hvort að setningu þeirra hafi verið staðið með þeim hætti sem venja og hefð er fyrir. Og það er athyglisvert, í þessum umræðum sem hér hafa verið í kvöld, að það er mikill munur á því hvernig þessir tveir stjórnarflokkar hafa staðið að málinu. Annars vegar Alþfl. þar sem rætt var við alla þingmenn áður en til lagasetningarinnar kom, en hins vegar Sjálfstfl. þar sem a.m.k. var ekki rætt við fleiri en tvo þingmenn og þá hugsanlega einhverja af ráðherrum flokksins. Ekki veit ég það og það hefur í rauninni ekki komið fram í þessum umræðum í kvöld. Hér er greinilega mismunur í vinnubrögðum og hugsanlega eru þá einhver ný vinnubrögð sem hér eru höfð uppi og það er þá spurning: Er það Alþfl. sem er að brydda upp á nýjum vinnubrögðum með því að tala við sína þigmenn áður en til setningar bráðabirgðalaganna kemur eða er það Sjálfstfl. sem er að brydda upp á nýjum vinnubrögðum með því að tala bara við örfáa útvalda? Það væri auðvitað gaman, vegna þess að ég veit þetta ekki sakir æsku minnar og reynsluleysis, að það yrði upplýst hér hver er að feta nýja stigu, því annar flokkurinn er að gera það. Þetta rekst hvað á annars horn, þannig að þeir eru ekki samstiga í málinu. Þannig að annar flokkurinn er tvímælalaust að brydda upp á einhverjum nýjungum hér og ég hefði mjög gaman af því ef t.d. hæstv. fjmrh., sem er náttúrlega farinn núna, enda búinn að staldra allnokkuð við, hefði getað svarað þessu. En hér er þó alla vega formaður þingflokks sjálfstæðismanna og hann mundi kannski geta upplýst mig um þetta.