Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:13:21 (3439)


[21:13]

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Það er sannarlega alvörumál þegar ríkisstjórn ákveður að gefa út bráðabirgðalög og það er ekki síður alvarlegt þegar þau bráðabirgðalög fjalla um það að stöðva verkfall. Það hefur enginn efast um það í þessum umræðum í dag að ríkisstjórnin hafi haft til þess formlegan og lagalegan rétt að gefa út bráðabirgðalög hvað varðaði þá deilu sem við blasti.
    Ég vík mér ekki undan því að hafa tekið þátt í undirbúningi málsins og ég staðfesti hér að ég stend að útgáfu þessara bráðabirgðalaga og átti ákveðinn þátt í undirbúningi málsins meðan það var á því stigi. Það hefur komið fram í umræðunum og verið lögð á það áhersla og eins og alþjóð veit, að þetta mál var komið í hnút á sínum tíma. Ríkisstjórnin hafði ítrekað reynt að miðla málum, reynt að kalla samningaaðila saman til lausnar og sátta og augljóst var af yfirlýsingum samningsaðila að málið var komið í mjög alvarlegan hnút hálfum mánuði eftir að verkfall hófst.
    Það sjónarmið hefur komið hér fram, sérstaklega frá hv. þingmönnum Framsfl., að það hefði átt að gefa þessari deilu lengri tíma þannig að samningsaðilar mættu freista þess að ná samkomulagi án afskipta löggjafans. Hv. þingmenn Framsfl. hafa talað hér í dag, margir hverjir, eins og nú væri verið að gefa út bráðabirgðalög í fyrsta sinn og þó ekki sé nefnt að verið sé jafnvel að gefa út bráðabirgðalög í fyrsta sinn til þess að stöðva verkföll. Ég hélt, og sérstaklega með tilliti til orða hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, sem hefur vitnað hér mjög til fortíðarinnar og viljað vekja okkur hv. þm. til vitundar um það að hugsa til fortíðarinnar þegar staða þessa máls er sérstaklega skoðuð núna, af því að við séum að fást hér við fortíðarvanda sem hæstv. ríkisstjórn hefir látið undir höfuð leggjast að takast á við, þá hélt ég að minni hans væri betra en svo að geta ekki rifjað það sjálfur upp að hann, hv. þm., hefur staðið í þeim sömu sporum og ég nú, að mæla með samþykkt bráðabirgðalaga og það meira að segja á verkfall.
    Árið 1986, 9. maí, voru gefin út bráðabirgðalög um stöðvun verkfalls félagsmanna í Skipstjórnarfélagi Íslands, svo og félagsmanna í Sjómannafélagi Reykjavíkur sem vinna á farskipum. Þetta verkfall hafði staðið 29. og 30. apríl, 5., 6. og 7. maí, samkvæmt því er forseta Íslands var gert kunnugt. Þingið lauk störfum 23. apríl og ég finn það ekki í þingtíðindum næsta haust eða í umræðum um þetta mál, 3. nóv. 1986, ( Gripið fram í: 1986.) bráðabirgðalögin eru þá gefin út 9. maí, að hv. þm. Stefán Guðmundsson né aðrir hv. þm. Framsfl. hafi yfir höfuð kvartað um það að þingið skyldi ekki kallað saman til þess að standa að útgáfu þessara laga. Og ég sé heldur ekki að hv. þm. hafi kvartað yfir seinagangi málsins haustið 1986 vegna þess að það verður fyrst að lögum með atkvæðagreiðslu 15. des. það ár eða rúmu hálfu ári eftir að bráðabirgðalögin eru gefin út. Að láta reka sig heim 23. apríl og standa svo að bráðabirgðalögum til að stöðva verkfall sem þá hafði löngu verið boðað 9. maí og spyrja ekki um það hvort hv. þm. hefðu þann 9. maí 1986 verið spurðir um það hvort þeir væru hlynntir útgáfu þessara bráðabirgðalaga eiður ei. (SvG: Hver var afstaða . . .  ) Það kom heldur ekki í ljós hver afstaða þeirra var endanlega fyrr en í atkvæðagreiðslu 15. des. sama ár.
    Ég rifja þetta upp í ljósi allra þeirra umræðna sem hér hafa orðið í dag þegar sömu þingmenn mæltu slíkri útgáfu bót 1986, vörðu slíka útgáfu og létu þetta allt yfir sig ganga. Það kann vel að vera að það hafi orðið einhver siðvæðing í Framsfl. síðan 1986 og það hafi kannski orðið einhver hugarfarsbreyting árið 1991, frá því að hverfa úr ríkisstjórn yfir til þess að hverfa til stjórnarandstöðu. ( Gripið fram í: . . .  stjórnarskránni breytt.) Eða er þetta einhvers konar skrípaleikur allt saman? Að það séu bara tvær ræður í gangi hér í þinginu, tvær útgáfur af ræðum? Er það til þess að auka virðingu Alþingis og álit almennings á okkur hv. þm. að standa þannig að málum? Er það trúverðugt? Telja hv. þm. Framsfl. í ljósi sögunnar og reynslunnar að það sé mark takandi yfir höfuð á svona sinnaskiptum, skyndilegum sinnaskiptum? Hvað þá þegar menn keppast um að ræða fortíðina? Ég hélt nefnilega að það væri grundvöllur okkar starfa að sýna ákveðna samkvæmni hvort sem við stæðum að ríkisstjórn eður ei.
    Þetta var mér mjög erfið ákvörðun, mjög erfið ákvörðun, að standa að og styðja útgáfu bráðabirgðalaganna og án þess að þing yrði kallað saman. Ég mat það svo að málin væru komin í slík óefni. Atvinnulífið væri allt að stöðvast og það tæki sinn tíma líka að kalla saman þingið. Ég reyndi að meta þetta út frá öllum hliðum málsins og taldi að þessi útgáfa þyldi enga bið eins og málin stóðu. Og nú er málið þó komið á nokkrum dögum til umræðu á hinu háa Alþingi, ekki nokkrum mánuðum eins og hv. þm. Framsfl. hafa haft reynslu af. Sannarlega er það þó fagnaðarefni og bót í máli hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það hafa orðið endurbætur á allri löggjöf er lítur að útgáfu bráðabirgðalaga og er það vel.
    Það má líka minna hv. þm. Svavar Gestsson á það að árið 1990 þá stóð hann fjórum sinnum að því að gefa út bráðabirgðalög. ( SvG: Með krötunum.) Já, já, með krötunum. Hann stóð fjórum sinnum að því að setja bráðabirgðalög árið 1990, 13. janúar. Hvar var þingið þá? 29. júní, 17. júlí og 3. ágúst. Það er ekkert nýtt fyrir hv. þm. Svavari Gestssyni að standa að útgáfu bráðabirgðalaga og meira að segja í jólaleyfi þingmanna og það þýðir ekkert fyrir hann að kalla hér fram í eða halda langar ræður um að hann þekki ekki slíkt. ( SvG: Vill presturinn trufla jólaleyfi þingmanna?) Það hefur komið hér fram í allmörgum ræðum í dag að það hefði einmitt verið rétt að trufla jólaleyfi þingmanna til að takast á við þetta mál og hefði ég ekki talið það út af fyrir sig mikla truflun. En ég vil rifja það upp fyrir hv. þm. Svavari Gestssyni ef hann veit ekki um það að árið 1990 þá stóð hann fjórum sinnum að því að gefa út bráðabirgðalög og þótti kannski ekki mikið. Sem betur fer þá hefur það þó verið stjórnvaldsstefna hin síðari ár að reyna að forðast það eins og frekast má að gefa út bráðabirgðalög og að þau væru ekki gefin út nema

brýna nauðsyn bæri til. Hv. þm. Svavar Gestsson veit vel um það. Alla vega man ég það vel árið 1978 og 1979 að þá fannst okkur þetta vera gengið út í slíkar öfgar að það þyrfti að fara að stemma stigu við. Við áttum gott samstarf við ríkisstjórn á þeim árum og töldum við þó sjálfir að það væri kannski dálítið langt gengið í þeim efnum þegar verið var að stjórna landinu nánast með tilskipunum frá einum mánuði til annars, með bráðabirgðalögum, þegar þing sat ekki. Kannski krafðist efnahagsástandið þess á þeim tíma. Þá voru aðrir tímar í efnahagsmálum en nú eru og mikil óðaverðbólga og þurfti oft að grípa inn í með ráðstöfunum í efnahagsmálum og ríkisfjármálum.
    Ég vil undirstrika það hér að það er e.t.v. munur á því hvort gefin eru út bráðabirgðalög almennt sem fjalla um félags- og efnahagsmálin eða bráðabirgðalög sem lúta að því að stöðva verkfall. Það er alvarlegt mál. Það er mjög alvarlegt mál vegna þess að þar erum við að snerta við grundvallarmannréttindum í landinu, hvorki meira né minna. Ég geri mér fulla grein fyrir því. Það snertir líka við grundvelli samvisku okkar eins og hefur komið fram í umræðum í þinginu og þarf nokkurt þrek til að greina þar í milli. Ég tel samt að þarna hafi borið brýna nauðsyn til vegna þjóðarhags.
    Virðulegur forseti. Kjarni málsins nú er sá hvernig megi takast á við þau vandamál sem sjómennirnir standa frammi fyrir og var rótin að deilum þeirra við útgerðarmenn að finna leið til að forða þeim frá því að verða neyddir til að taka þátt í hinu svokallaða kvótabraski. Það er málið, það er krafan sem stendur núna upp á þingið. Það hefur komið fram að það hefur ekki haldið þó að sjómenn og útgerðarmenn hafi samið um það í samningum með skýrt orðaðri yfirlýsingu að sjómenn skyldu ekki taka þátt í kaupum á aflaheimildum, þá hafi slíkt ekki haldið. Því hefur einnig verið haldið fram að þó að það yrði bundið í lög þá mundi það ekki halda heldur að festa í lög ákvæði gildandi kjarasamninga um að óheimilt sé að láta sjómenn taka þátt í kostnaði við kaup aflamarks. Það hefur verið efast um að það mundi halda frekar. Hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði að þetta væri áfellisdómur yfir ríkisstjórninni hvernig komið væri fyrir sjómönnum andspænis kvótakerfinu. Honum hefur ekki komið til hugar að þetta kynni að vera líka áfellisdómur yfir sjávarútvegsstefnu Framsfl. Ég held að hann neiti því ekki að Framsfl. hafi átt fulla aðild að því að þróa og setja upp hið svokallaða kvótakerfi og sumir vilja ganga svo langt að segja að þetta sé einkahugmynd Framsfl. sem hann hafi laðað Alþb. og m.a. Alþfl. til fylgis við á sínum tíma og Sjálfstfl. líka náttúrlega á árum áður. En haft forustu fyrir þessari stefnumótun sl. áratug og fyrst og síðast ber ábyrgð á þessu kerfi. Ég er ekki að segja að þeir hv. þm. í Framsfl., sem báru þetta mál fyrst og fremst fyrir brjósti, ætluðu svo að þetta mundi koma í bakið á sjómönnum og setja á þá slíka fjötra og ástandið ber vitni um núna. Það er ég ekki að segja. Ég tek ekki svo djúpt í árinni með sleggjudómum og yfirlýsingum eins og hv. þm. Guðni Ágústsson leyfði sér hér í umræðunum að segja að ríkisstjórnin notaði atvinnuleysið sem svipu á fólk. Ég trúi því ekki að hv. þm. Guðni Ágústsson meini þetta, ég geri það ekki. Ég tek ekki mark á þessum orðum hans að geta ásakað nokkurn mann um það að nota atvinnuleysi sem svipu á fólk frekar en að ég ætli Framsfl. það að nota kvótakerfi sem svipu á sjómenn þegar það var sett á stofn á sínum tíma. Það geri ég ekki, slíkt væri ósanngjarnt. En undan því verður ekki hlaupist og það getur enginn stjórnmálaflokkur hlaupið undan því sem hefur átt aðild að ríkisstjórn á undanförnum árum að bera ábyrgð á þessu kerfi sem er að fjötra sjómenn og soga upp úr launaumslögum sjómanna stóran hluta af launum þeirra. Þar berum við öll ábyrgð. Það þýðir ekkert að koma hér upp í ræðustól og vísa til fortíðar og segja að núv. ríkisstjórn beri alla ábyrgðina, það er tómt mál. Við þurfum að horfa fram á veginn og það saman. Það er verkefni þingsins núna. Það hefur komið fram minnisblað frá þessari svokölluðu þríhöfða nefnd sem hefur verið lagt fyrir sjútvn. þingsins og er það vel að þannig skuli staðið strax að samráði við þingið og ber að þakka það að hæstv. sjútvrh. skuli strax og fyrstu drög þessarar nefndar samkvæmt bráðabirgðalögunum koma fram að það skuli tekið til umræðu í hv. sjútvn., slíkt ber að þakka. Það verður að segja eins og er að þessi hugmynd um tilboðsmarkað fyrir aflamark leysir á engan hátt sjómenn að fullu undan þeirri kvöð að taka þátt í kvótabraski ef útgerðarmenn standa þannig að málum og er auðvitað ekki full lausn á þessu máli. Ég sé heldur ekki þótt aðstæður sköpuðust til fiskverðshækkunar að það mundi leysa þennan vanda að fullu um að sjómenn yrðu ekki áfram neyddir til að taka þátt í hinu svokallaða kvótabraski. Þannig að hér þarf að koma annað og meira til.
    Virðulegur forseti. Það er kjarni málsins að það skapist aðstæður hér í þinginu til að takast á við það úrlausnarefni að forða sjómönnum með öllum ráðum frá því að þurfa að borga fyrir rekstur kvótakerfisins, að borga fyrir kerfi sem í sjálfu sér hefur birst í þessu tilfelli ranglátt og er að taka frá sjómönnum launin þeirra að stórum hluta. Hvernig getum við brugðist við þessum vanda? Það gilda lög um fiskveiðistjórnunina og kvótabraskið fer fram í skjóli þessara laga og það er alveg ljóst að sjómönnum verður ekki forðað frá þessum fjötrum öðruvísi en að lögum verði breytt. Það er alveg ljóst að það verður að gera.
    Ég trúi því að það skapist aðstæður í nánu samráði við hagsmunaaðila, sjómenn og útvegsmenn, til að ná fram árangri og niðurstöðu sem tryggi réttarstöðu sjómanna og hag útgerðarinnar í landinu.