Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:33:28 (3440)


[21:33]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins víkja að orðum hv. 5. þm. Austurl. þar sem hann vék að afstöðu okkar framsóknarmanna til setningar bráðabirgðalaga. Ég ætlast til að hv. þm. sé það ljóst að þingsköpum var breytt í maí 1991 og þá urðu miklar breytingar á. Og ég hélt að hv. þm., þar sem það vill svo til að hann er einnig starfandi varaforseti þingsins, gerði sér grein fyrir því í hverju þessi breyting fólst m.a. Að halda því fram hér að það hafi verið einhverjum vandkvæðum bundið að kalla Alþingi saman þegar bráðabirgðalögin veru sett er náttúrlega hrein blekking og það veit þingmaðurinn.
    En mig langar til að spyrja hv. þm. hvort ég hafi heyrt rétt að þingmaðurinn, hv. 5. þm. Austurl., hafi unnið að gerð þessa frv. Hvort hv. þm. hafi unnið að gerð þessa frv. þar sem í því fólst að setja bráðabirgðalög á austfirska sjómenn. Heyrði ég það rétt að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, þingmaður Austurl., hafi unnið að gerð þessa frv. sem felur það í sér að setja lög á austfirska sjómenn?