Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:35:07 (3441)


[21:35]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort það komi hv. þm. Stefáni Guðmundssyni svo mjög á óvart að þau lýðræðislegu vinnubrögð skuli gilda í Alþfl., hann kannski þekkir ekki slík vinnubrögð í Framsfl., að þegar um svo stórt og brýnt mál er að ræða og það að setja bráðabirgðalög til að stöðva verkfall sjómanna að um slíkt eigi sér stað náið samráð í þingflokki flokksins. ( StG: Ekki við sjálfstæðismenn.) Að halda því fram að það sé ekki talað við fulltrúa flokksins í hv. sjútvn. og hann hafður með í ráðum um slíkan málatilbúnað. Ég veit ekki hvaða vinnubrögð gilda í Framsfl. í þessu efni. En það virðist koma hv. þm. Stefáni Guðmundssyni á óvart að ráðherrar skuli hafa samráð við þingmenn sína og einkum þá sem eru sérstaklega kallaðir til starfa á ákveðnu málasviði þegar um svo brýnt mál er að ræða, útgáfu bráðabirgðalaga til að stöðva verkfall sjómanna. Ég hleyp ekki undan þeirri ábyrgð, ég axla hana. Til þess hef ég verið kjörinn af austfirskum sjómönnum.