Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 21:52:32 (3451)


[21:52]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég undirstrikaði í minni ræðu áðan að Halldór Ásgrímsson bæri vissulega ábyrgð á þeirri sjávarútvegsstefnu sem er í landinu. Það fer ekkert á milli mála. Það vakti vissulega athygli þegar hæstv. forsrh. kallaði á hann á sinn fund. En hvað er það sem er sérstætt? Sjómenn og útgerðarmenn höfðu náð samkomulagi um það, undirritaða yfirlýsingu, að sjómenn ættu ekki að taka þátt í kvótakaupum. Það hafði aldrei tíðkast þann tíma sem Halldór Ásgrímsson var sjútvrh. Það hafði aldrei tíðkast þann tíma. Það eru nýjar leikreglur sem hafa átt sér stað á seinustu tveimur árum að ég segi, óheiðarlegir menn innan útgerðarmanna, (GunnS: Hefur lögum og reglum verið breytt?) Nú bið ég hv. 5. þm. Austurl. að hlusta mjög vel því það er grundvallaratriði fyrir skilningnum --- að óheiðarlegir útgerðarmenn hafa áttað sig á því að það er hægt að selja kvóta frá bátnum sínum og leika svo þann leik, vegna þeirrar kreppu sem orðin er í landinu, að neyða sjómenn til þess að taka þátt í að kaupa kvóta á skipið á ný og þetta er framkvæmt með því að fiskverðið er í reynd lækkað. Ég hef séð svona uppgjör. Og kratarnir sem hrópuðu um allt í seinustu kosningum að það ætti að breyta sjávarútvegsstefnunni, eru í dag að vinna gegn því sem verkfallið stefndi að. Það var að þvinga útgerðarmenn til þess að samþykkja að það sem þeir hefðu undirritað yrði gert að lögum. Og nú er hv. 5. þm. Austurl. farinn úr salnum þannig að það getur enginn vonast til þess að hann hafi skilning á málinu með svo gloppóttri hlustun. Það gengur bara ekki upp.
    Og hvað er verið að gera? Hér er verið að halda því fram að lagasetningin eins og Halldór Ásgrímsson hafði hana sé vitlaus. Hún sé að fara ofan í pyngju sjómanna. En í sama texta er því haldið fram að það hafi borið brýna nauðsyn til að láta þetta gilda til 15. júní. Það er ekkert samræmi í þessum málflutningi. Þeir eru búnir að fá tvö ár til að hugsa, tvö ár. Hvernig væri að vera skákmaður og þurfa að tefla eftir klukku og vera ekki búinn að hreyfa einn einasta mann á tveimur árum? ( StG: Hvað væri það kallað?) Ég er hræddur um að það þætti skrýtið. Staðan er nefnilega sú að klukkan hefur gengið á hæstv. ríkisstjórn í þessu máli. Í heilt ár biðu sjómenn með aðgerðir, að fara í verkfall. Í heilt ár. Er það skortur á sáttfýsi að bíða í heilt ár án þess að fara í verkfall? Er það ekki eitt af því sem við teljum til fyrirmyndar í afstöðu stéttarfélags, ef það rýkur ekki strax í verkfall og samningar eru lausir? Vissulega. Það er eitt af því sem við stjórnarþingmenn fyrri tíma mátum mjög mikils, ef vopnagleðin, að fara í verkfall, var ekki

það mikil að menn biðu og reyndu að ná samningum í heilt ár.
    Svo brestur verkfallið á og hvað eru þeir að fara fram á? Þeir eru að fara fram á það að LÍÚ haldi ekki hlífiskildi yfir hinum óheiðarlegu í stéttinni. Það var það sem einn af varaþm. Sjálfstfl. sagði í útvarpið um þessi mál. En hvað gerðu þeir? Þeir héldu hlífiskildi yfir liðinu sem hafði skrifað undir það, undir yfirlýsinguna um að sjómenn ættu ekki að taka þátt í kvótakaupunum. Þeir vildu ekki fá þann lagatexta. Þeir stóðu gegn því. Þess vegna er það ekki inni í bráðabirgðalögunum í dag. Vegna þess að þeir vilja rjúfa þau orð og það er aum staða að standa að slíku. Það eru fleiri, fleiri útgerðarmenn búnir að segja við mig: Þetta kvótabrask verður að stoppa. Vegna þess að þeir sjá það auðvitað að ef sumir útgerðarmenn komast upp með það að lækka laun sjómanna um 20--30% á sínum skipum á sama tíma og hinir borga rétt laun, þá hljóta það að verða þessir óheiðarlegu sem eignast flotann um síðir vegna þess að efnahagsafkoman hjá þeim verður það miklu betri. Þetta er ekki flóknara mál en það og ég trúi ekki öðru en að hv. 5. þm. Austurl. geri sér grein fyrir því.
    Hitt verð ég aftur á móti að segja, að ég er þakklátur fyrir þær upplýsingar sem hv. 5. þm. Austurl. hefur veitt um vinnubrögð innan Alþfl. Það er til hreinnar fyrirmyndar að þingmenn hafi fengið að koma að þeirri vinnu að semja bráðabirgðalögin. Og ég vil staðfesta það að innan Framsfl. var ávallt haft samband við þingmenn áður en bráðabirgðalög voru sett, en það er líka rétt að það var ekki haft samráð við þingmenn um samningu þeirra oft og tíðum. Þau voru samin og svo var spurt á þingflokksfundi: Treystið þið ykkur til að samþykkja þetta eða ekki? Það er nefnilega svo að það er kannski stundum nógu erfitt í samsteypustjórnum að ná samkomulagi um textann, þó að hver og einn þingmaður geti ekki fengið að valsa mjög mikið með hann heldur verði að svara þeirri spurningu: Ætlar hann að styðja þetta eða ekki?
    En með þessu er hv. 5. þm. Austurl. raunverulega að senda skeytin inn í Sjálfstfl. vegna þess að það er upplýst að þar gilti það lýðræði ekki að menn væru spurðir. Það voru tveir menn spurðir. En hver var ástæðan? Hver var ástæðan fyrir því að hæstv. forsrh. og hv. þm. Geir Haarde komu sér saman um þau vinnubrögð að það borgaði sig ekki að spyrja þingflokkinn í þessu máli. Það yrði að stilla þeim upp við vegg, vegna þess að þeir vissu að ef þeir hefðu farið með frv. inn í þingflokk Sjálfstfl. og látið greiða atkvæði um það, þá hefði vissulega mikill meiri hluti Sjálfstfl. stutt frv., en það var vitað að innan flokksins voru þeir menn sem ekki hefðu greitt atkvæði með því. Fleiri en einn og fleiri en tveir. Og það var betra að þeirra mati að segja við forsetann: Við höfum rökstuddan grun fyrir því að meiri hluti sé fyrir þessu, heldur en að standa frammi fyrri því að það væri andstaða það margra innan Sjálfstfl. að þeir yrðu að segja: Í dag er staðan sú að svona margir þingmenn eru á móti. Þeir treystu því aftur á móti að flokkskerfið dygði til þess að stilla þessum mönnum upp við vegg frá þeim degi sem bráðabirgðalögin voru sett og til þess dags sem atkvæðagreiðslan færi fram, að þeir teldu að þrátt fyrir allt væri skynsamlegra að lúta flokksaga í málinu heldur en að fella ríkisstjórnina. Þetta segir okkur, hv. 5. þm. Austurl., allt um stöðu Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum.
    Það er nú einu sinni svo að það verður aldrei sett stefna um stjórnun fiskveiða svo öllum líki. Hún verður aldrei sett. Og það er kannski hægara um að tala en í að komast að ætla að standa þannig að skömmtun á aðganginum að hafinu að menn verði sáttir. Alvaran blasir við, það er ofveiði.
     (Forseti (GunnS) : Nú er tími hv. þm. úti og bið ég hann um að ljúka nú þegar máli sínu.)
    Það er ljúft að verða við því, hæstv. forseti, því nú heyri ég að ekki skortir á skilninginn hjá hv. 5. þm. Austurl. Hann hefur hlotið þá fræðslu sem nauðsynleg er í þessum efnum.