Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 22:39:17 (3467)


[22:39]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Bráðabirgðalög eru ekki venjulegt þingmál. Bráðabirgðalög eru einstök. Þau byggjast á því að ríkisstjórn taki sér vald að setja lög án atbeina Alþingis.
    Nú hefur það komið fram í seinni hluta þessarar umræðuna, virðulegi forseti, að eingöngu var talað við tvo þingmenn Sjálfstfl. áður en bráðabirgðalögin voru sett. Hér hafa í umræðunni fulltrúar þriggja annarra þingflokka, þar á meðal núv. hæstv. forseti, Gunnlaugur Stefánsson, fyrir hönd Alþfl. og þingmenn Framsfl. og Alþb. lýst því yfir að ávallt hafi þeirri reglu verið fylgt og hefðin sé slík að leita til allra þingmanna viðkomandi flokka þegar bráðabirgðalög eru sett ef þeir á annað borð finnast. Sjálfstfl. hins vegar hefur fylgt allt annarri reglu. Það er ekki einu sinni gerð tilraun til að leita til þingmanna allra heldur eingöngu tveggja.
    Hér var breytt stjórnarskrá fyrir fáeinum árum síðan og það er hægt að sjá í þingskjölum að andi þeirra breytinga tengdist mjög setningu bráðabirgðalaga. Samband forsrh. og forseta lýðveldisins er einstakt. Forsrh. er eini maðurinn sem ber ábyrgð gagnvart forseta lýðveldisins beint.
    Vegna alls þessa máls, virðulegi forseti, er auðvitað alveg ljóst að þessi umræða sem hér fer fram núna er sérstök í öllu eðli sínu. Við erum hér að ræða með hvaða hætti fordæmi eru sköpuð eftir breytingar á stjórnarskránni með setningu bráðabirgðalaga. Það er ekki venjulegt þingmál, virðulegi forseti. Í ljósi þess hve málið er alvarlegt þá höfum við fulltrúar þriggja þingflokka ákveðið að bera fram við forseta þá ósk frá þingflokki Alþb., þingflokki Framsfl. og þingflokki Kvennalistans að umræðu verði frestað og hún ekki hafin að nýju fyrr en hæstv. forsrh. getur milliliðalaust gert þinginu grein fyrir þessari atburðarás. Ég ítreka þess vegna við hæstv. forseta þá beiðni sem hér er sett fram formlega frá þremur þingflokkum um að umræðunni sé frestað þar til hæstv. forsrh. getur verið viðstaddur.