Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 22:49:00 (3471)


[22:49]
     Jón Kristjánsson (um fundarstjórn) :
    Herra forseti. Ég vil hér með ítreka þá beiðni sem ég flutti úr ræðustól áðan að þessari umræðu verði frestað. Ég sé ekki að það séu rök og kemur mjög á óvart ef samið er um það á öðrum degi þegar þingið kemur saman eftir jólafrí að ljúka ákveðnu máli á einni vöku. Það er gert þegar þingi er að ljúka, ekki þegar það er að hefjast. Þetta kemur mér því afar spánskt fyrir sjónir þó ég hafi ekki tekið þátt í umræðum um dagskrá vikunnar.
    Ég vil líka benda á það að hér er ekki um það að ræða að þessi bráðabirgðalög falli úr gildi því ríkisstjórnin var svo forsjál að þau ná alla leið til 15. júní. Án þess að ég sé að mæla með því að það sé dregið á langinn að þingvilji komi í ljós í þessum lögum þá rekur enga nauðsyn til að klára þetta núna. Ég skil því ekki af hverju ekki er hægt að verða við þessari beiðni þannig að það sé hægt að ræða við hæstv. forsrh. og hann geti þá borið af sér, ef kalla má það, sakir sem hafa verið fram færðar í þessari umræðu. Ég held að það hljóti að vera hæstv. forsrh. kærkomið að geta tekið þátt í umræðunni um þau atriði sem hér hafa komið fram.