Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 22:52:12 (3473)

[22:52]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. hélt því fram áðan að það væri mótsögn í þeim óskum sem við höfum nú sett fram og þeirri ósk sem var sett fram í gær að fram færi umræða um þessi bráðabirgðalög áður en umræðan um frv. um stjórn fiskveiða hæfist í þinginu. Það er engin mótsögn í því. Það er fullkomlega sambærilegt. Það sem hefur hins vegar gerst í dag og er alveg ljóst að hæstv. sjútvrh., fyrrv. forsrh., gerir sér fullkomlega grein fyrir alvöru þess máls, það sýndi athugasemd hans hér áðan, er að það hefur verið staðfest í umræðunum, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. ræddi eingöngu við tvo þingmenn Sjálfstfl. áður en bráðabirgðalögin voru sett.
    Hæstv. forseti verður auðvitað að gera sér grein fyrir því að ef þingið meðhöndlar það eins og venjuleg mál í þinginu þá er verið að skapa þannig fordæmi með bráðabirgðalagasetningu sem er stórhættulegt stjórnskipun lýðveldisins. Forsetanum er ætlað að tryggja forræði þingræðisins í landinu. Forsetinn er ekki hér eins og einhver verkstjóri í færibandaverksmiðju þar sem hlutirnir eiga að ganga bara eftir einhverju færibandi. Við erum í stofnun þar sem grundvallarreglur lýðræðislegrar stjórnskipunar . . .
    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að biðja hv. þm. um að halda sig við efni málsins sem er að bera af sér sakir.)
    Hæstv. forseti getur alveg haldið þessu áfram. Ég vil bara vekja athygli hans á því að það er samvinna þingmanna og forseta sem ræður því hver blærinn er í þinginu. Þrír þingflokkar hafa óskað eftir því að umræðu sé frestað. Ég bið hæstv. forseta að nefna mér eitt fordæmi um það að þegar slík ósk hefur komið fram frá þremur þingflokkum á fyrsta umræðudegi máls sé hún ekki tekin til greina. Ég bið hæstv. forseta að nefna mér slíkt fordæmi. Þetta er fyrsti umræðudagur málsins. Þrír þingflokkar hafa sett fram þessa ósk hér og nú. Ég bið forseta að athuga alvarlega hvaða afleiðingar ákvörðun hans hefur ef þeirri ósk er neitað. Þess vegna fer ég fram á það að hæstv. forseti verði við þessari ósk sem nú hefur verið ítrekuð af þingmönnum Kvennalista, Framsfl. og Alþb. í nafni þessara þingflokka. Ef hann ætlar ekki að verða við því þá óska ég eftir að gert verði 10--15 mínútna hlé þannig að við getum fengið að ræða við forsetann um alvöru málsins án þeirra hindrana sem felast í þingsköpunum um fundarstjórn forseta og að bera af sér sakir.