Stöðvun verkfalls fiskimanna

76. fundur
Þriðjudaginn 25. janúar 1994, kl. 23:38:30 (3480)


[23:38]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram í dag um þessi bráðabirgðalög hafa varpað ljósi á ýmsa þætti í þeim vanda sem menn standa frammi fyrir að því er varðar þá deilu sem stóð á milli útgerðarmanna og sjómanna. Eðlilega hefur verið vikið að setningu bráðabirgðalaganna og notkun slíkrar heimildar. Ég er þeirrar skoðunar að ærin ástæða sé til að fara sparlega með það vald og tel að með gildum rökum megi sýna fram á að það hefur verið gert í tíð núv. ríkisstjórnar. Ég tel hins vegar að þær aðstæður hafi verið fyrir hendi sem gerðu það að verkum að óhjákvæmilegt var að grípa til bráðabirgðalagasetningar af þessu tilefni og ætla ekki að fara frekari orðum um það en vísa að öðru leyti til framsöguræðu með frv.
    Á hinn bóginn er athygli vert þó margir þingmenn hafi gert athugasemdir við setningu bráðabirgðalaga að því fer fjarri að allir hafi verið þeirrar skoðunar sem hér hafa talað að ónauðsynlegt hafi verið að grípa inn í deiluna með lagasetningu. Þvert á móti hefur komið fram af hálfu margra hv. þm. að deilan hefði verið í þeirri stöðu að hjá því hafi ekki verið komist. Lögin eru tiltölulega einföld í sniðum og hér hefur ekki verið vikið að mörgum efnisatriðum laganna en ég tel nauðsynlegt að svara sérstaklega spurningu sem tveir hv. þm. hafa borið fram varðandi 3. gr. bráðbirgðalaganna. Að því hefur verið spurt hvort hún feli í sér ótímabundna stöðvun á verkföllum. Því er til að svara að í 3. gr. er skýrt tekið fram að vinnustöðvanir þær sem lög þessi taka til svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða eru óheimilar. Í 2. gr. frv. er kjaramálum skipað á þann veg að samningar þeirra félaga sem í hlut eiga eru framlengdir til 15. júní. Í 3. gr. er því beinlínis vitnað til þess að fram til þess dags eru vinnustöðvanir óheimilar en að sjálfsögðu heimilar þegar komið er fram yfir 15. júní. Þetta er venjubundið orðalag við lagasetningu af þessu tagi og er skýrt í öllum atriðum. Ég taldi rétt, herra forseti, að víkja sérstaklega að þessu atriði vegna þess að um það hafði verið spurt í umræðunni.
    Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa fleiri orð um þetta efni að sinni en geri ráð fyrir því að málið fái ítarlega meðferð í hv. sjútvn. og komi síðan til frekari umfjöllunar við 2. og 3. umr.