[14:28]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við umræður í gær um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar á verkfall sjómanna kom það í ljós að ekki hafði verið kannað áður en lögin voru sett hvort þingmeirihluti væri fyrir málinu og átti það sérstaklega við um þingmenn Sjálfstfl., sem ekki var haft samband við samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu hjá hæstv. sjútvrh.

    Þrátt fyrir að ekki séu skilyrði fyrir því við setningu bráðabirgðalaga að áður sé kannaður þingmeirihluti, þá er mjög eðlilegt að það sé gert og raunar móðgun við þingræðið ef svo er ekki. Eftir þær upplýsingar var um það beðið af hálfu stjórnarandstöðuflokka að umræðunni yrði frestað þar til forsrh. gæti verið viðstaddur, en hann er erlendis. Jafnframt var það áréttað að ekkert væri því til fyrirstöðu að vinna að málinu í nefnd þó að 1. umr. væri ekki lokið. Þrátt fyrir ítrekaða beiðni okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar um að 1. umr. um málið yrði frestað vildi forseti þingsins ekki verða við því og úrskurðaði að ljúka skyldi umræðunni í nótt, rétt fyrir miðnætti. Þetta tel ég óviðunandi þar sem hér var aðeins um sjálfsagða beiðni að ræða. Það lá ekkert á að ljúka þessari umræðu.
    Í annan stað er rétt að upplýsa að í gær var fundur í landbn. þar sem farið var yfir nýlegan hæstaréttardóm um innflutning landbúnaðarvara og í framhaldi af því lögð fram drög að frv., sem unnið hefur verið að í fjórum ráðuneytum, um breytingu á búvörulögum. Ekki voru gerðar athugasemdir við það af hálfu nefndarmanna þar sem fyrir lá að frv. yrði lagt fram í gær. Það gerðist hins vegar ekki en fundur hafði verið boðaður í landbn. á hádegi í dag til að halda umræðunni áfram. Við þessar aðstæður töldum við nefndarmenn í minni hluta landbn. að það væri ekki grundvöllur fyrir því að taka málið fyrir, þar sem ekkert frv. væri komið fram og óskuðum eftir að fundi nefndarinnar væri frestað. Því hafnaði formaður landbn.
    Hér tel ég gengið mjög á réttindi þingmanna og bókstaflega verið að valtra yfir okkur og mótmæli því harðlega slíkum vinnubrögðum sem hér hafa verið viðhöfð.