[14:30]
     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Við umræður í gærkvöldi um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar kom upp sú staða að ljóst varð að ríkisstjórnin hafði sett þessi bráðabirgðalög án þess að hafa samband við þingmenn annars stjórnarflokksins, utan einn eða tvo. Í sjónvarpsviðtali við hæstv. forsrh. kvöldið sem bráðabirgðalögin voru sett lét hann svo ummælt að það hefði verið haft samband við allflesta þingmenn.
    Það kom auðvitað engum í hug að stjórnarliðar hefðu ekki haft samband við a.m.k. meiri hluta þingsins áður en þessi löggjöf var sett, þó að enginn efist um að ríkisstjórnin hefur lögformlegan rétt til að setja bráðabirgðalögin. Spurningin er um vinnubrögð og umgengni við þingið og umgengni við forseta Íslands. Það var farið fram á frest á umræðunni til að ræða þessi mál við hæstv. forsrh. þegar hann kemur heim, en því var hafnað þrátt fyrir að nú sé aðeins annar dagurinn sem þingið starfar eftir áramót og þetta 1. umr. um málið. Og það rekur engin nauður til að ljúka þessari umræðu, jafnvel þó málið fari til nefndar til vinnslu þar. Þetta eru óhæf vinnubrögð og alveg óhæf umgengni við þingmenn sem ég vil fyrir hönd okkar framsóknarmanna mótmæla mjög harðlega. Og það er auðvitað ekki hægt að greiða atkvæði með því að vísa málinu milli umræðna eins og í pottinn er búið, þó það færi til nefndar.