[14:53]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Geir Haarde viðhafði þau ummæli að ég hefði aðeins verið hér með getsakir og ósannindi. Þetta eru ásakanir sem ekki eru réttar. Ég sagði það eitt að ég horfði á hæstv. forsrh., ég var staddur vestur á Patreksfirði þá, eftir þriggja eða fjögurra tíma fund þar sem bráðabirgðalög voru sett og hann var í viðtali við fréttamenn og sagði að það væri búið að tryggja meiri hluta á bak við bráðabirgðalögin og gaf til kynna að haft hefði verið samband símleiðis við alla þingmenn Sjálfstfl. sem náðst hefði í. Þetta viðtal geta fjölmiðlarnir spilað fyrir hv. þm. og munu áreiðanlega gera.
    Ég velti hins vegar þeirri spurningu fyrir mér, af því að ég veit að þinghaldið er breytt og það var verið að setja bráðabirgðalög við mjög óvenjulegar aðstæður, að forseti Íslands hlyti að hafa viljað hafa það tryggt að það væri þingmeirihluti á bak við þessa bráðabirgðalagasetningu. En ég skal viðurkenna að ég hef ekki hugmynd um hvað fór á milli forseta Íslands og hæstv. forsrh. á þeim tveggja manna fundum. En það eru orð hæstv. sjútvrh., sem er heiðarlegur og sannsögull stjórnmálamaður, sem upplýsir það óvænt hér í gær að það hafi verið haft samband við tvo þingmenn, sem kom síðan í ljós í umræðunum í gær að virtust ekki hafa meira umboð en svo að hér töluðu nokkrir af þingmönnum Sjálfstfl. og gáfu það eindregið til kynna að þeir væru í vafa um hvort þeir mundu greiða bráðabirgðalögunum atkvæði sitt.