[14:55]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Sá forseti sem nú situr á forsetastól kaus að nota vald sitt til þess að kveða upp dóm um það hvort ég hefði verið að bera af mér sakir í ræðu minni áðan. Ég vil segja við fornvin minn, sem nú situr á forsetastól: Nóg fannst mér gjörðin í gærkvöldi, að nota forsetavaldið til að neita ósk frá þremur þingflokkum um að fresta umræðu, sem ég veit ekki til að áður hafi verið gert í þinginu, þó ekki sé verið að ganga þá götu sem forseti er byrjaður á í dag. Það var borið á mig af hæstv. fjmrh. að ég hefði farið með ósatt mál og hv. þm. Geir Haarde tók undir það. Ef það eru ekki sakir þá veit ég ekki hvað eru sakir, hæstv. forseti. Ég rakti það síðan hér, með lýsingu á ummælum í gær, að ég fór ekki með rangt mál. Hæstv. forseti getur haft sínar einkaskoðanir á því, en að úrskurða hér á forsetastól að þar með hafi ég ekki verið að bera af mér sakir eru orð sem ég held að við ættum að gleyma, virðulegi forseti. ( Gripið fram í: Maður fer nú að biðja um Salome.) ( Gripið fram í: Hvar er hún?)