[14:56]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal ræða eingöngu um þær sakir sem hér eru bornar á mig. Þær eru að ég hafi sagt að hv. þm. hafi logið eða sagt ósatt. Það sem ég sagði úr ræðustól var það að hv. þm. og reyndar ekki hann heldur líka aðrir, það hefur komið fram í umræðunni, að það hefði verið sagt að forseta Íslands, forseta lýðveldisins, hefði verið sagt ósatt. Því hefur verið haldið fram og ég vona að hv. þm. staðfesti að því hafi verið haldið fram. Ég taldi mig ekki vera að segja neitt annað heldur en komið hefur fram hjá hv. þm. Það kalla ég ekki að ljúga upp á neinn, að segja þetta sem þeir höfðu áður sagt. En síðan bætti hv. þm. um betur og sagði að ég og hæstv. sjútvrh. hefðum beitt okkur gegn því að málin hefðu náð fram að ganga í gærkvöldi. Ég vil aðeins, vegna þess að ég hef heyrt þetta líka í fjölmiðlum einhvers staðar frá, láta það koma fram að þetta er rangt. Klukkan hálfníu var ég mættur í gærkvöldi sem staðgengill forsrh. Þegar klukkan var langt gengin tólf var gert hlé hér á fundi. Það var hringt í mig þá og ég var beðinn um að koma hingað sem staðgengill forsrh. að ósk hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Ég kom hérna og þegar ég kom í húsið var mér tilkynnt að hv. þm. hefði gengið af fundi og væri farinn heim. Þetta vil ég að komi hér fram af því að því var haldið fram að ég hefði ekki komið aftur og ég hefði beitt mér gegn því að málið hefði fengið framgang.
    Loks vil ég segja það að það var stjórnarandstaðan, ef ég veit rétt, kannski ekki í heilu lagi heldur einstakir þingmenn sem óskuðu sérstaklega eftir því að umræðan um bráðabirgðalögin færi fram í gær en yrði ekki frestað þar til (Gripið fram í.) . . .

    ( Forseti (GunnS) : Forseti verður að grípa fram í ræðu hæstv. fjmrh. og minna hann á það að hann er að tala undir 55. gr. þingskapa, um að bera af sér sakir, og minna hann á að halda sig við þær sakir sem á hann hafa verið bornar.)
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda máli mínu lengur áfram. Ég hef komið þeim atriðum til skila og tel að það sem hefur komið fram í þessum umræðum í dag sé alveg nægilegt og ég hvet hv. þm. til þess að hægt verði nú að hefja efnislegar umræður um þau mál sem eru á dagskrá þessa fundar.