Stöðvun verkfalls fiskimanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:05:58 (3501)


[15:05]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Vegna þeirrar málsmeðferðar sem hér hefur verið, þ.e. að það var ekki orðið við beiðni stjórnarandstöðunnar um það að þessari umræðu yrði frestað í gærkvöldi og það væri hægt að hafa orðastað við forsrh. og eftir atvikum fleiri sjálfstæðismenn sérstaklega um það með hvaða hætti þessir hlutir hefðu borið að og til þess að þessi umræða hefði getað gengið til enda eins og hún hefði þurft að gera og eins og umræðurnar í dag hafa sýnt að hún hefði þurft að gera, þá vil ég til að mótmæla þessari málsmeðferð taka þann kost að greiða ekki atkvæði, sem er út af fyrir sig mjög óvenjulegt og yfirleitt ætti maður ekki að þurfa að bregðast við með þeim hætti þegar verið er að greiða atkvæði um það að vísa máli til 2. umr. eins og hér er verið að gera.