Stöðvun verkfalls fiskimanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:11:30 (3504)


[15:11]

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þegar lögum um þingsköp Alþingis var breytt og það skipulag tekið upp að Alþingi starfaði í einni málstofu þá var fyrst á eftir þá breytingu talsvert rætt um það að nauðsynlegt væri af þeim sökum að umferðum frv. hefði þá fækkað úr sex í þrjár hér í þinginu að tryggja það með ýmsum hætti, bæði með lögum og hefðum og starfsvenjum að málum væri ekki hraðað þannig í gegnum umræður og á milli umræðna að öruggt væri að nægjanlegur tími gæfist til að skoða þau. Það er af þeim sökum einnig margfalt alvarlegra en ella þegar forseti fer með vald sitt með þeim hætti sem gerðist í gærkvöldi. Það var gengið út frá því að í kjölfar þessarar breytingar yrði meiri sanngirni sýnd gagnvart réttmætum óskum um það að umræðum yrði frestað og mál skoðuð eða þau send til nefndar, t.d. milli 2. og 3. umr. ef um slíkt væri að ræða. Ég tel að framkoma forseta í gærkvöldi sé algert stílbrot í þessum efnum auk þess sem málsmeðferðin er að öllu leyti mjög óeðlileg af hálfu meiri hlutans á þinginu. Ég vil því nota þetta tækifæri og mótmæla þessum framgangi og þessu sérstaka ofbeldi sem forseti sýndi við fundarstjórnina með því að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu. Ég greiði ekki atkvæði.