Lögskráning sjómanna

77. fundur
Miðvikudaginn 26. janúar 1994, kl. 15:31:13 (3514)


[15:31]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég held að hv. 9. þm. Reykv. ætti að líta svolítið í eigin barm þegar hann talar um þingmenn sem beita röddinni. Ég ítreka það enn og aftur og það kemur mjög skýrt fram í máli hv. þm. að nú ber hann á nýjan leik fram í fyrirspurnarformi hvort ég hafi gefið þessi fyrirmæli. Áður var hann ítrekað búinn að bera þær ásakanir á mig að ég hafi gefið fyrirmælin. Og það er það sem ég tel vera ámælisvert og það er um þá athöfn hv. þm. sem ég var að fjalla um og ég var að gagnrýna. ( SvG: Ráðherrann ber ábyrgðina.) Það er alkunna að í orðræðum þegar menn komast í blindgötu í efnislegri umræðu eða með rök fyrir sínu máli að menn reyna að snúa upp á sig með því að bera sakir á aðra og reyna að koma þeim í þá stöðu að þeir þurfi að sanna sakleysi sitt. Hv. þm. hefur sýnt fimi sína í þeirri tegund ræðulistar.