Samkomulag um lengd utandagskrárumræðu

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 10:36:05 (3535)


[10:36]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa yfir sérstakri óánægju minni með þessa ráðstöfun eins og hún liggur hér fyrir. Ég kannast ekki við það að formenn þingflokka hafi gert þetta samkomulag við forseta. Þegar ég fór úr þinghúsinu um hálfsjöleytið í gær, þá vissi ég ekki annað en þessi umræða ætti að vera ótakmörkuð. Ég frétti það síðan í morgun að það hefði orðið niðurstaða að menn hefðu fallist á það í samtölum við forseta, sem ég tók ekki þátt í en ég er núna starfandi formaður þingflokksins, að þetta yrði þriggja tíma umræða. Ég lýsi yfir sérstakri óánægju minni með það.
    Mér er kunnugt um að fjöldi þingmanna hefur áhuga á að taka þátt í þessari umræðu í dag og ég tel að það þurfi að leita leiða til þess að gefa mönnum tækifæri til að taka þátt í þessari umræðu. Hér eru mikil alvörumál á ferðum og við hljótum að fá að hlusta á talsmenn stjórnarflokkanna útskýra það fyrir okkur og þjóðinni með hvaða hætti verði brugðist við því mikla atvinnuleysi sem er á ferðinni og hvernig ný atvinnutækifæri sem EES-samningurinn og aðrar ráðstafanir ríkisstjórnar í atvinnumálum muni koma okkur til góða í framtíðinni. Við þurfum að taka okkur langan tíma til þessarar umræðu og þrír klukkutímar eru ekkert nálægt því nóg auk þess sem það er mjög erfitt að sætta sig við það að hvað eftir annað þegar stór mál eru tekin fyrir í þinginu sé almennum þingmönnum ekki gefið tækifæri til að taka til máls.
    Ég fer fram á það við forseta að menn leiti leiða til þess að ná samkomulagi um það að umræðan haldi áfram. Ég nefni þann möguleika að menn haldi sig við það að takmarka ræðutímann en menn geti síðan ótakmarkað komið hér og tekið til máls.