Samkomulag um lengd utandagskrárumræðu

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 10:38:29 (3536)


[10:38]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson talaði við mig í gær og ræddi við mig um möguleika þess að hægt væri að ræða í dag um atvinnuleysismál og á milli okkar fóru þau orð að hugsanlega gætu tveir klukkutímar dugað. Skömmu síðar talaði ég við forseta þingsins sem sagði mér að fulltrúi Kvennalistans hefði rætt um það við forseta að um væri að ræða hálftíma umræðu. Í viðtölum mínum, sem er kannski óþarfi að vera að rekja hér, við hv. formann Alþb. nefndi ég það til sögunnar að forsrh. væri ekki á landinu og kannski eðlilegra að bíða með umræðuna þar til hann kæmi en vegna eindreginna óska var á það fallist að hafa umræðuna í dag. Eftir viðræður á milli mín, forseta þingsins, formanns Alþb. og varaformanns þingflokks framsóknarmanna varð niðurstaðan sú að umræðan tæki þann tíma að hún hæfist í upphafi þingfundar og stæði til kl. 13.30, m.a. vegna þess að ég á ekki kost á því að vera hér miklu lengur í dag sökum þess að ég þarf að hverfa af landi brott. Þetta hélt ég að hefði verið gott samkomulag um og tók að mér að tala við fulltrúa Alþfl. sem var gert. Hafi hins vegar ekki verið talað við fulltrúa Kvennalistans ber að sjálfsögðu að biðjast afsökunar á því því að það eru hrein mistök sem hafa byggst á því að það hlyti að koma út á eitt ef umræðan væri þrír tímar en ekki hálftími. En hafi það misfarist vil ég fyrir hönd þeirra sem tóku þátt í þessum viðræðum hreinlega biðjast afsökunar á því og tel að þetta séu mistök sem ég vona að okkur verði fyrirgefið.
    Þetta vildi ég láta koma fram og að frá mínum sjónarhóli er ekkert því til fyrirstöðu að fresta umræðunni til mánudagsins. En ef hún fer fram í dag tel ég að hún verði að vera takmörkuð með þessum hætti auk þess sem þess ber að geta að það er auðvitað hægt að taka málið upp með öðrum hætti hvenær sem er þegar þingmönnum þóknast.