Samkomulag um lengd utandagskrárumræðu

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 10:41:12 (3537)


[10:41]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur lýst hér í grófum dráttum þeirri atburðarás sem varð í gær og hans frásögn er í alla staði rétt. Ég vil bæta við hana því að ég sagði við hæstv. forseta Salome Þorkelsdóttur að á undanförnum missirum hefðu komið fram óánægjuraddir ef umræða um mikilvæg mál væri takmörkuð eins og á að gera hér í dag því að margir þingmenn hefðu þá og að öllum líkindum nú einnig verið óánægðir með það að af þeim væri tekinn rétturinn til þess að taka þátt í slíkri umræðu. Ósk mín var upphaflega um ótakmarkaðan umræðutíma fyrir þessa mikilvægu umræðu sem ég held að allir geri sér

grein fyrir að er einhver sú mikilvægasta sem við þurfum að taka þátt í á þinginu. Mér var síðan skýrt frá utanferð hæstv. forsrh. Afstaða mín var sú að ég óskaði að tala við forsrh. hver svo sem það svo væri á hvaða stundu sem væri og mundi ekki gera neina athugasemd við það hver gegndi því embætti vegna þess að ég er að tala um stefnu ríkisstjórnarinnar og ég reikna ekki með að hún sé önnur eftir því hver talar fyrir henni. Þess vegna skiptir það út af fyrir sig ekki höfuðmáli hvort það er Davíð Oddsson eða núv. starfandi forsrh., Friðrik Sophusson, eða sá sem tekur við af honum síðar í dag, hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson.
    En ég teldi nú skynsamlegt að forseti leitaði eftir viðræðum meðan við hefjum umræðuna við fulltrúa þingflokkana um að taka upp aðra skipan þannig að menn geti verið sæmilega sáttir við þessa umræðu. Ég mun ekki fyrir mitt leyti gera neina athugasemd við það þó að hæstv. fjmrh. þurfi að víkja frá umræðunni þó ég skilji mjög vel að hann kjósi að vera í henni til loka.