Samkomulag um lengd utandagskrárumræðu

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 10:43:10 (3538)




[10:43]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Sú umræða sem hér fer fram um stjórn þingsins hlýtur hvað tímalengd snertir að grundvallast á 72. gr. þingskapanna, en þar segir svo, með leyfi forseta, hvað þetta áhrærir:
    ,,Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokkka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar.
    Forseti getur þá, með samþykki allra þingflokka, ákveðið að ræðutími skuli vera annar en ákveðinn er í 44., 48. og 50. gr. og hve lengi umræðan má standa.``
    Það liggur þess vegna ljóst fyrir að einn þingflokkur hefur algert neitunarvald í þessum efnum og þarf ekki að ræða það frekar. Vilji þingheimur ekki una því, þá hefur hann ekkert við að styðjast nema 90. gr.
    Ég vek athygli á þessu vegna þess að þó að völd hæstv. forsrh. séu mikil, þá er ekki gert ráð fyrir því að hann stjórni líka þinghaldinu. Það er skýrt í 72. gr. að það er verkefni sem falið er forseta þingsins.