Samkomulag um lengd utandagskrárumræðu

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 10:45:58 (3540)


[10:45]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Til að rekja þessa sögu nákvæmlega, þá er það alveg rétt sem hér kom fram hjá hæstv. fjmrh. að ég spurðist fyrir um það í gær hvort ég gæti fengið utandagskrárumræðu um atvinnuleysið þegar forsrh. væri kominn heim. Mér var kunnugt um það að hann kæmi ekki fyrr en eftir helgi. Ég sagði að það gæti í því tilfelli allt eins verið um að ræða hálftíma umræðu þar sem ég hygðist bera fram beinar spurningar, sem forsrh. gæti fengið áður en umræðan færi fram, og jafnframt bera fram skriflega fyrirspurn í allmörgum liðum um það til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hygðist grípa nú þegar. Atvinnuleysið er skollið á. Það vex frá mánuði til mánaðar og ég vil fá bein svör við spurningum um það hvað ríkisstjórnin ætlar að gera.
    Það er allt í lagi að tala um þetta hér í dag í þrjá til fjóra tíma en það er ekki víst að við fáum neinar tillögur. Það er ekki víst að við fáum neinar nákvæmar ráðstafanir á því hvað á að gera. Það er það sem ég vil fá og með því að leggja fram skriflega fyrirspurn, þá verður það ekki til umræðu í þinginu en ég vil fá utandagskrárumræðu um það og skrifleg fyrirspurn kæmi í framhaldi af því.