Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 10:48:01 (3542)


[10:47]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Um langa tíð hefur verið samstaða um það með okkur Íslendingum að hafa hér á landi siðað samfélag. Siðað samfélag felst í því að sérhver einstaklingur eigi í senn rétt og möguleika til að vinna og þannig tryggja sjálfum sér og fjölskyldu sinni framfæri, hamingju í heimilislífi og öryggi. Það sem er að gerast í okkar litla samfélagi nú er að þetta grundvallareinkenni siðaðs samfélags er að bresta. Um þessar mundir búa þúsundir fjölskyldna á Íslandi við atvinnuleysi og örvæntingu. Það sem verra er, það er engin von til að úr rætist. Í hverri viku bætast hundruð í þennan hóp. Á hverri klukkustund bætast 15 nýjar fjölskyldur við flokk atvinnulausra á Íslandi, 15 heimili á hverri klukkustund verða að horfast í augu við það að þau hafa verið skilin frá hinu siðaða samfélagi þar sem atvinna veitir öryggi og tryggir afkomu.
    Fyrir rúmu ári síðan sagði forsrh. Davíð Oddsson og félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir þegar atvinnuleysið jókst að innan tíðar með vormánuðum yrði það úr sögunni.
    Í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar boðaði forsrh. Davíð Oddsson að harla gott ástand ríkti í íslensku þjóðfélagi, nánast einstakur árangur efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Hann málaði með gylltum pensli lýsingu á íslensku þjóðfélagi en í dag í kuldanum og frostinu, rokinu og garranum koma þúsundir atvinnuleysingja á Austurvöll til að spyrja ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, spyrja Alþfl. og spyrja Sjálfstfl.: Hvað á að gera? Kjörorð þess fundar er: Við viljum vinnu. Á sama degi og þær þúsundir, sem atvinnuleysið hefur slitið frá hinu siðaða samfélagi á Íslandi, koma á Austurvöll dvelur forsrh. Davíð Oddsson í kyrrlátu, afslöppuðu umhverfi samkvæmt lýsingu Morgunblaðsins í dag í svissnesku fjallaþorpi með helstu auðkýfingum veraldarinnar þar sem yfir 100 einkaþotur bíða á flugvöllum. Og árgjaldið til að taka þátt í þessum lúxusfundi í Sviss er 1 millj. kr. Afslappað og rólegt umhverfi, segir Morgunblaðið í dag sem lýsingu á þeim fundi þar sem forsrh. Íslands situr innan um þá sem borgað hafa eina milljón í aðgangseyri að fundinum og einkaþoturnar, ekki taldar í stykkjum heldur í hundruðum bíða eftir ráðstefnugestum. En á Austurvöll koma hinir atvinnulausu og spyrja: Hvað á að gera?
    Í desember voru yfir 8 þús. Íslendingar atvinnulausir. Það voru rúm 6% af mannaflanum. Fjölgunin frá mánuðinum á undan hafði verið um 30%. Á hverri viku bætast 50 nýjar fjölskyldur á atvinnuleysisskrá Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. 25% félagsmanna í Múrarafélaginu eru án atvinnu. 40 fjölskyldur bætast á degi hverjum í hóp hinna atvinnulausu. Og er það ekki hróplegt fyrir félmrh. Alþfl., sem á sunnudaginn ætlar á hátíðarfundi að opna ár fjölskyldunnar, að á þessu ári fjölskyldunnar verði 15--25% félagsmanna fjölmargra samtaka launafólks án vinnu og samkvæmt upplýsingum forustumanna félaganna er það mestallt fjölskyldufólk? Einkennið á íslenska samfélaginu í upphafi árs fjölskyldunnar er fleiri fjölskyldur atvinnulausar á Íslandi en nokkru sinni fyrr í áratugi. Er það þá ekki stílbrot að félmrh. Alþfl. skuli ætla að opna ár fjölskyldunnar með sérstakri hátíðarsamkomu?
    Bak við þessar tölur er mannlegur harmleikur. Bak við þessar tölur er gjaldþrot, örvænting, ótti og upplausn. Ætlar ríkisstjórnin virkilega að sitja aðgerðarlaus hjá þegar verið er að slíta í sundur það einkenni hins siðaða samfélags okkar Íslendinga sem við höfum talið til grundvallaratriða? Ég hef þess vegna hér í dag beðið um umræðu til að spyrja ríkisstjórn Íslands hvað hún ætli að gera. Og það er spurt að því í dag vegna þess að í boðskap forsrh. til þessa hefur hann ekkert haft fram að færa annað en lýsa því að allt væri harla gott sem ríkisstjórnin hefði gert og orsökin að atvinnuleysinu lægi í þorskinum einum. Ef ekki væri brestur í þorskstofni þá væri hér ekkert atvinnuleysi. Forsrh. hefur lýst því yfir að í raun fallist honum hendur, ríkisstjórnin hafi gert allt í fjárlögum, gengisbreytingu og vaxtamálum sem henni sé fært að gera og það eina sem eftir sé sé að ná þorskstofninum upp á ný.
    En eru þessar skýringar hæstv. forsrh. haldbærar? Er það rétt hjá fulltrúum ríkisstjórnarinnar að Ísland skeri sig úr hvað lítið atvinnuleysi snerti, það sem einkenni íslenska hagkerfið sé að hér sé náð betri árangri en annars staðar og eina ástæðan sem reidd er fram til þeirra þúsunda sem koma á Austurvöll í dag sé þorskurinn? Nei, hvorugt af þessu er rétt.
    Nýlega hafa birst tölur sem sýna það með skýrum hætti að árið 1993 var annað besta aflaárið síðan veiðar hófust. 29. desember kemur það fram í sjávarútvegsblaði Morgunblaðsins að það ár sem ný er liðið er metár hvað afla snertir. Það er aðeins hægt að finna eitt annað ár með minni afla. Og ef litið er yfir veiðarnar þá blasir það við að í fjölmörgum fiskstofnum var um að ræða algert met. Aldrei hefur veiðst meira af karfa en á sl. ári. Aldrei hefur veiðst meiri loðna en á sl. ári og rækjuaflinn skaraði einnig fram úr. Það er því alveg ljóst að þótt þorskafli hafi eitthvað minnkað, eru heildarveiðar Íslendinga á árinu 1993 meiri en nokkru sinni fyrr ef frá er skilið eitt ár. Og það er reyndar athyglisvert, hæstv. ráðherra, að 15. des. birtast þær niðurstöður að þorskaflinn á sl. hausti, haustinu 1993, er rúmum 7 þús. tonnum meiri en á sama tíma 1992, þannig að sú staðreynd blasir við að á þessum haust- og vetrarmánuðum sem nú eru liðnir er um 7 þús. tonna meiri afli en á árinu 1992. Skýringuna á vaxandi atvinnuleysi í nóvember og desember er því ekki að finna í minnkandi þorskafla frá árinu á undan og er þó aflinn í Smugunni ekki talinn með í þeim tölum. Og tvö öflugustu sölusamtök í sjávarútvegi á Íslandi hafa nú nýlega birt niðurstöðutölur um það að þau hafa um þessar mundir verið að stórauka útflutning sinn og verðmæti. Íslenskar sjávarafurðir og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, tvö öflugustu sölusamtök Íslendinga, fagna metári í sölu afla á erlendum mörkuðum á því ári sem nú er nýliðið. Aukningin hjá Íslenskum sjávarafurðum var um 9% að verðmæti útflutningsafurða á liðnu ári og fram kemur í upplýsingum þeim sem fyrirtækið hefur sent frá sér að verðmæti frystra afurða jókst um 7% frá árinu á undan og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna jók útflutning sinn á liðnu ári um 2 milljarða miðað við árið 1992 og tekjur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, verðmætið í útflutningi sjávarafurða hefur aldrei verið meiri í íslenskum krónum talið en á liðnu ári. Þess vegna er skýring hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar að afsaka núverandi atvinnuleysi með bresti í afla og verðmætum sjávarafurða röng, hún er einfaldlega fölsk. Hún stenst ekki staðreyndir vegna þess að árið 1993 var annað mesta aflaárið í sögu Íslendinga. Þorskaflinn undanfarna mánuði er 7 þús. tonnum meiri en í fyrra og tvö öflugustu sölusamtökin á Íslandi, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Íslenskar sjávarafurðir, hafa fengið mun meira verðmæti á undanförnum missirum út úr útflutningi sínum en árið á undan. Skýringin, afsökunin liggur ekki heldur í því að ríkisstjórnin geti fagnað einhverjum sérstökum árangri í alþjóðlegum samanburði. Atvinnuleysið á Íslandi er helmingi meira en t.d. í Japan. Atvinnuleysið á Íslandi er álíka og í Noregi. Atvinnuleysið á Íslandi er aðeins minna en í Bandaríkjunum. Það er þess vegna rangt hjá hæstv. ráðherrum að þeir geti bent til landa, hvort sem það er nágrannaland okkar Noregur eða tvö öflugustu hagkerfin í heiminum, Bandaríkin eða Japan, og sagt: Vegna þess að það er atvinnuleysi út um alla veröld hlýtur að vera atvinnuleysi hér þó hér sé það minna.
    Það sem hins vegar sker sig úr þegar litið er á alþjóðlegan samanburð er að hagvöxturinn á Íslandi er minni. Ísland sker sig nefnilega úr í alþjóðlegum samanburði í einu tilliti, þ.e. hagvöxturinn. Og hver er skýringin? Skýringin felst í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það var tekin hér upp fyrir rúmum tveimur árum síðan efnahagsstefna sem fól í sér allt önnur vinnubrögð, allt aðrar áherslur í hagstjórn en áður.
    Það hefur verið sagt að markmiðið hafi verið að ná verðbólguni niður. Þá gleymist það að í tíð síðustu ríkisstjórnar hafði tekist að ná verðbólgunni niður án þess að atvinnuleysið héldi innreið sína. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var nefnilega sýnt og sannað að það er hægt að hafa bæði litla verðbólgu og forðast atvinnuleysi. Alveg á sama hátt og síðasta ríkisstjórn sýndi það að verðbólgan á Íslandi var ekki náttúrulögmál, að okkur tókst með réttri efnahagsstefnu að ná verðbólgunni úr 30% niður í lága eins stafs tölu. Á sama hátt segi ég hér í dag og staðreyndirnar sanna það mál að það er ekki heldur náttúrulögmál að lítil verðbólga birtist í atvinnuleysi, vaxandi atvinnuleysi, miklu atvinnuleysi. Það er efnahagsstefna atvinnuleysisins sem leiðir til þess. Og þær tölur komu skýrt fram á Stöð 2 í gær þegar rakið var með nákvæmum hætti hvernig atvinnuleysið hefur aukist frá árinu 1991 til ársins 1992 og síðan frá 1992--1993. Það hefur þrefaldast á valdatíma ríkisstjórnarinnar án þess að nokkur teljandi breyting hafi orðið á verðbólgunni. Það er mjög svipuð verðbólga um þessar mundir og hún var á þeim missirum þegar ríkisstjórnin var að taka við. Munurinn er í raun og veru hverfandi lítll. En hinn stóri munur birtist í atvinnuleysistölunum. Þar hefur um þreföldun verið að ræða.
    Alþb. hefur varað við því í langan tíma að þessi efnahagsstefna samdráttar, frjálshyggju, sú efnahagsstefna sem fylgt var í Bandaríkjunum af Reagan og Bush, fylgt í Bretlandi af Thatcher og Major, fylgt var í Kanada í stjórn Íhaldsflokksins en hafnað hefur nú verið í kosningum bæði í Bandaríkjunum og Kanada, þessi efnahagsstefna er að leiða fram hér á Íslandi nákvæmlega sama atvinnuleysið, sama brestinn í hinu siðaða samfélagi okkar Íslendinga eins og hún gerði í þeim löndum þar sem þessi stefna hefur verið reynd.
    Við alþýðubandalagsmenn lögðum fram haustið 1992 ítarlegar tillögur um breytta efnahagsstefnu. Við gengum á fund ríkisstjórnarinnar og buðum þeim samvinnu allra flokka í landinu um breytta stjórnarstefnu. Ríkisstjórnin taldi sig þá hafa öll ráð í sinni hendi. Hún hafnaði þeirri samvinnu. Í dag koma þúsundirnar á Austurvöll til að mótmæla afleiðingunum af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
    Undanfarna mánuði hefur Alþb. síðan kynnt ítarlega útfærslu á okkar tillögugerð, tillögugerð sem við höfum gefið vinnuheitið Útflutningsleiðin vegna þess að hún felur í sér annað forrit, aðrar áherslur í hagstjórn á Íslandi heldur en ríkisstjórnin hefur fylgt. Við rekjum þar með ítarlegum hætti hvernig með nýjum áherslum í fjárfestingu, í skattamálum, í stjórn peningamála, varðandi rannsóknir og fjölmarga aðra þætti hagstjórnarinnar á Íslandi sé hægt að snúa þessari þróun við, ekki með því að bíða eftir einhverri stórlausn eins og álveri og þessi ríkisstjórn gerði á sínu fyrsta ári, heldur með því að láta hundruð og jafnvel nokkrar þúsundir smárra og meðalstórra fyrirtækja fá möguleika til þess að skapa nýja atvinnu, svara samdrættinum með sókn til útflutnings. Og það er athyglisvert að fyrir fáeinum vikum síðan birti einn af þekktustu athafnamönnum á Íslandi, sá sem hlaut að mig minnir árið 1992 verðlaun sem athafnamaður ársins, ítarlega lýsingu á því hvernig fyrirtæki hans, prentsmiðjan Oddi, hefði snúið við samdrættinum sér í hag. Fyrirsögnin í viðskiptablaði Morgunblaðsins var á þessa leið: ,,Höfum náð að vega upp samdrátt með útflutningi.``
    Í þessu viðtali við athafnamann ársins, Þorgeir Baldursson í Odda, birtist í reynd kjarninn í þeirri efnahagsstefnu sem við alþýðubandalagsmenn höfðum lagt fram með ítarlegum hætti og erum nú að vinna

að með því að bjóða fjölmörgum aðilum til slíks samstarfs.
    Ég sagði í upphafi, virðulegi forseti, að siðað samfélag hefði um áratugi verið markmið okkar Íslendinga. Við hefðum deilt hér um leiðir. Þjóðin hefur skipst í flokka eftir stefnum en við höfum væntanlega öll verið sammála um það að markmið okkar væri siðað samfélag þar sem allar fjölskyldur í landinu gætu búði við það öryggi sem atvinnutekjur af traustri vinnu skapa. Nú er stefna þessarar ríkisstjórnar að slíta það öryggi í sundur. Ef ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Alþfl. og Sjálfstfl., getur ekki á næstu vikum lagt fram ítarlega og sannfærandi lýsingu á því til hvaða aðgerða hún ætlar að grípa til að snúa þjóðinni frá braut vaxandi atvinnuleysis, þá á hún að rjúfa þing og boða til kosninga. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á því að hafa á hverri klukkustund 15 nýjar fjölskyldur ganga í sveit atvinnuleysingjanna. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á því að harmleikur, vonbrigði og sársauki haldi innreið sína i brjóstum hinna atvinnulausu. Sú ríkisstjórn sem ekki ræður við þann vanda á að viðurkenna það.
    Þess vegna lýk ég máli mínu, virðulegi forseti, um leið og ég ber fram þá spurningu til ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar: Hver eru ykkar úrræði? Hvað á að gera? Að ítreka þá tillögu að ef ríkisstjórnin á allra næstu vikum leggur ekki fram sannfærandi tillögugerð um nýsköpun í íslenskum efnahagsmálum þá á hún tafarlaust að rjúfa þing og boða til kosninga og gefa þjóðinni kost á því að velja nýja ríkisstjórn.