Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 11:09:03 (3543)


[11:09]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Aðgerðir gegn atvinnuleysi eru að sjálfsögðu forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Reyndar er sömu sögu að segja í flestum ef ekki öllum löndunum í kringum okkur. Verulegt atvinnuleysi verður ekki þolað hér á landi til frambúðar, eyðileggingarmáttur þess er mikill og við sjáum félagslegar og sálfræðilegar afleiðingar allt of víða í þjóðfélaginu. Íslenska þjóðin er starfsöm og hefur byggt afkomu sína á mikilli vinnu. Okkur þykir öllum sárt að sjá heilbrigt fólk með vinnufúsar hendur standandi í biðröð til að bíða eftir atvinnuleysisbótum. Það er því fullkomlega eðlilegt og um leið æskilegt að umræða um þetta mál og þennan mikla vanda sem að okkur steðjar fari fram hér í dag.
    Benda má á fjölmargar samverkandi orsakir atvinnuleysis hér á landi. Ég hygg að flestir séu sammála um að ytri áföll, einkum minni þorskafli og lægra verð á afurðum okkar, bæði fiski og áli, eigi stærstan þátt í samdrættinum sem leitt hefur til atvinnuleysis. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem hóf þessa umræðu gaf í skyn að það væri rangt sem sagt hefur verið að verðlag okkar á afurðum erlendis hefði lækkað eins og sagt hefur verið æðioft. Ég kynnti mér það alveg sérstaklega og ef við lítum á verðlag á sjávarafurðum eins og það er mælt í janúar 1991 og síðan aftur í desember á sl. ári, 1993, þá hefur verðfall orðið á milli 24--25%, hvorki meira né minna, mælt í SDR. Við skulum átta okkur á því að það er ekki hægt að bera saman íslenskar krónur á öllum tímabilum en þetta er betri mælikvarði og þetta er vísitala sem reiknuð er út hér á landi og ég hef hingað til ekki heyrt menn efast um það að þetta séu ekki réttar tölur. Við skulum þess vegna ekki gera minna úr þeim vanda sem þessi þjóð á við að glíma en efni standa til.
    Í öðru lagi vil ég minna á að langvarandi stöðug efnahagslægð í okkar heimshluta hefur haft lamandi áhrif á útflutningsgreinar Íslendinga ásamt minnkandi kaupmætti í Austur-Evrópu í kjölfar gjaldþrots kommúnismans. Þessu til viðbótar má nefna fjárfestingarmistök á umliðnum árum og offjárfestingu sem fjármögnuð var með erlendu fé og byggðist kannski fremur á bjartsýni en raunsæi. Sem dæmi um þetta má nefna að ríkissjóður afskrifaði 8--10 milljarða á árunum 1990--1993 af töpuðum fjárfestingarkröfum og meira er í vændum á þessu ári og sjálfsagt á næstu árum, m.a. í sjóðakerfinu. Mikil erlend skuldasöfnun þjóðarinnar þegar góðæri ríkti hefur auðvitað orðið til þess að nú, þegar saman dregur, þarf að greiða niður þessar skuldir. Það er athyglisvert að afborganir og vextir af erlendum lánum sem greiða þarf á yfirstandandi ári eru 51 milljarður kr. eða um það bil helmingurinn af íslensku fjárlögunum þegar litið er á þjóðarbúið í heild. Þetta eru vaxtagreiðslur, greiðslur afborgana af lánum sem tekin voru þegar góðæri ríkti á Íslandi og þrengir auðvitað kosti okkar nú þegar verr árar.
    Ríkisstjórnin hefur á undanförnum tveimur árum þurft að fást við gífurlega efnahagserfiðleika og atvinnuleysi í miklu stærri stíl en Íslendingar hafa átt að venjast. Sjálfsagt má deila um árangurinn en full ástæða er til að rifja upp að í skýrslu Alþýðusambands Íslands í nóvember 1992 fyrir um það bil 15 mánuðum síðan var talið að atvinnuleysi hér á landi gæti farið í 20--25% ef ekkert yrði að gert. Markmið ríkisstjórnarinnar er og hefur verið að koma í veg fyrir aukið atvinnuleysi með víðtækri samstöðu og samstarfi, einkum við aðila vinnumarkaðarins. Þetta hefur verið varnarbarátta og sem betur fer hefur nokkur árangur náðst við erfiðar aðstæður.
    Hv. þm. spurði um aðgerðir. Skipta má aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn atvinnuleysinu í þrennt. Í fyrsta lagi hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að bæta stöðu atvinnulífsins. Með stöðugu verðlagi, auknu frelsi í viðskiptum milli landa, lækkun skatta á atvinnureksturinn, lækkun vaxta og hagstæðu raungengi hefur samkeppnisstaðan verið styrkt og rekstrarskilyrðin bætt. Í öðru lagi hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar miðað að því að stuðla að friði á vinnumarkaði og hófsömum kjarasamningi. Þannig hefur tekist í góðu samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins að draga úr kaupmáttarskerðingu þeirra sem lakast eru settir með sérstökum aðgerðum í ríkisfjármálum. Lækkun skatta á matvæli nýtist t.d. þeim sem eru með tekjur undir skattleysismörkum og lækkandi vextir koma skuldugum fjölskyldum til góða.
    Í þriðja lagi hefur ríkisstjórnin dregið úr atvinnuleysi með beinum aðgerðum. Rekstrartilfærslur og rekstrarútgjöld ríkisins hafa verið lækkuð til að mæta auknum útgjöldum til sérstakra atvinnuskapandi verkefna. Samið hefur verið við sveitarfélögin um framlög til atvinnumyndandi verkefna einnig og það er gert í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð. Opinbert fé hefur verið lagt til fiskeldis og loðdýraræktar í því skyni að þessar atvinnugreinar geti vaxið aftur um leið og skilyrði batna á erlendum mörkuðum.
    Vandamál skipasmíðaiðnaðarins hefur verið til meðferðar í ríkisstjórn. Samþykkt hefur verið að leggja fram fjármagn til að styrkja stöðu íslenskra skipasmiðja vegna niðurgreiðslna af hálfu t.d. Norðmanna og unnið er að tillögum um það hvernig við getum beitt undirboðs- og jöfnunartollum til þess að ná fram þeim árangri að styrkja stöðu íslenska skipasmíðaiðnaðarins.
    Þá hefur ríkisstjórnin í samstarfi við Háskóla Íslands lagt fé til rannsóknastyrkja fyrir námsmenn sem ekki hafa átt kost á sumarvinnu og stuðlað hefur verið að útflutningi verkefna, m.a. í tengslum við alþjóðlegar aðgerðir. Ég minni á í því sambandi það sem er að gerast fyrir botni Miðjarðarhafs, það sem er að gerast í Eystrasaltsríkjunum og ríkisstjórnin hefur fylgst með og styrkt aðgerðir einstaklinga og fyrirtækja sem hafa verið að leita að verkefnum erlendis til að styrkja atvinnustöðuna hér heima.
    Það má auðvitað spyrja að því hvernig þessar aðgerðir og fleiri sem mætti nefna til hafa skilað sér í baráttunni gegn auknu atvinnuleysi. Ég minnti áðan á það að fyrir 15 mánðum sagði ASÍ: ,,Atvinnuleysi hér á landi verður 20--25%`` --- það var í nóvember 1992 --- ,,ef ekkert verður að gert.`` En við getum einnig borið okkur saman við aðrar þjóðir.
    Í Evrópubandalaginu er spáð að atvinnuleysi vaxi á yfirstandandi ári og verði yfir 12%. Í Svíþjóð var atvinnuleysi árið 1990 áþekkt atvinnuleysinu hér eða um 1,5%. Samkvæmt spá stjórnvalda þar verður atvinnuleysi um það bil 8,5% á yfirstandandi ári og ef við teljum með það fólk sem er á námskeiðum, einfaldlega vegna þess að það fær ekki vinnu, þá er líklegt að atvinnuleysi megi teljast um 12%.
    Í Finnlandi var atvinnuleysið lítið meira en hér á landi fyrir örfáum árum. Það var 3,4% 1990. Þar er ástandið einna verst og talið er að atvinnuleysi þar á yfirstandandi ári verði tæplega 20%, ég endurtek, tæplega 20% og jafnvel í Noregi þar sem hagvöxtur hefur verið tiltölulega stöðugur, þeir hafa lifað m.a. á olíu og ég hygg að olían í norsku efnahagslífi sé svipuð að stærð og þorskurinn í því íslenska, þrátt fyrir þetta allt saman hefur atvinnuleysið í Noregi vaxið og er spáð að það verði um 6% á yfirstandandi ári. Og stundum heyrist Sviss vera nefnt sem dýrðin og Eden í þessu sambandi. Og það er rétt að atvinnuleysi í Sviss árið 1990 var miklu minna en hér á landi eða 0,6% en í ár verður það 5,5% og er þó Sviss það land þar sem atvinnuleysi er einna minnst í heiminum. Þetta segi ég nú vegna þess að þegar þessi samanburður er tíundaður þá kemur í ljós að þrátt fyrir allt hefur okkur tekist í okkar varnarbaráttu að koma í veg fyrir vaxandi atvinnuleysi því að í þessum löndum sem ég nefndi til sögunnar, sérstaklega á Norðurlöndum, þar hafa ríkisstjórnir og aðrir þurft að fást við sams konar efnahagsvandamál og hér á landi. ( SvG: Sagðirðu að ríkisstjórninni hefði tekist að koma í veg fyrir vaxandi atvinnuleysi?) Já, verulegt vaxandi atvinnuleysi. Ég hef sagt það, ( SvG: Það er vaxandi.), ég sagði vaxandi og ég skal skýra það. Það skýrist af því að spár lágu fyrir frá Alþýðusambandinu og spár hafa legið fyrir erlendis og menn hafa sýnt hvernig atvinnuleysið hefur vaxið alþjóðlega, en það hefur vaxið minna hér vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar og vona ég þá að þetta skiljist.
    Atvinnuleysisvandinn er alþjóðlegur og hefur nú um skeið herjað einmitt á velferðarríkin á Norðurlöndum með óvægnari hætti en áður. Í norrænu fjármálaráðherranefndinni hefur atvinnuleysisvandinn verið ofarlega á dagskrá. Sömuleiðis hefur málið verið tekið upp innan EFTA á vegum fjármálaráðherranna og á sameiginlegum vettvangi EFTA og EB, ekki síst í kjölfar hvítrar skýrslu Delors og skýrslu sem EFTA-ríkin skrifuðu um þetta mál. Atvinnumálin, hagvaxtarmálin og atvinnuleysismálin hafa verið til sérstakrar meðferðar í OECD. Þar hafa sérfræðingar brotið þetta mál til mergjar og skýrsludrög hafa verið kynnt ríkisstjórnum þessara landa. Ég ætla að sjálfsögðu ekki hér að ræða efnisatriði þessara skýrslna, sem hafa komið upp í samstarfi fjármálaráðherranna en í fjmrn. höfum við kappkostað að fylgjast með þessum málum. Við höfum sótt suma þessa fundi og átt samstarf við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega ASÍ, VSÍ og nú upp á síðkastið BSRB um þessi mál.
    Það má kannski segja að í þessum skýrslum komi fram þegar atvinnuleysið er greint og á því getum við lært að atvinnuleysisvandinn sé þrenns konar.
    1. Hann er af tæknilegum ástæðum, þ.e. atvinnuleysi verður til vegna tækniframfara.
    2. Um kerfisbundið atvinnuleysi er að ræða, þ.e. atvinnuleysið hefur haldið áfram að vera til þrátt fyrir hagvöxt, þrátt fyrir að sveiflan niður á við hafi hætt og efnahagslíf hafi orðið skárra í löndunum. Þetta hafa menn kallað kerfisbundið atvinnuleysi og felst m.a. í því að talið er að vinnumarkaðurinn sé gallaður, enda skulum við taka eftir að atvinnuleysi er ekki einungis af efnahagslegum toga. Atvinnuleysisvandinn er líka af kerfislægum toga, getur verið vegna þess að við stöndum ekki rétt að kjarasamningum. Um þetta hafa verið skrifaðar lærðar ritgerðir. Í því samband má minna á ritgerð eða ræðu Þorvaldar Gylfasonar prófessors, sem hann flutti á norrænum vettvangi, en talsvert hefur einmitt verið staðnæmst við þetta atriði upp á síðkastið, sérstaklega þegar rætt er um atvinnuleysisvandann í Evrópu og hann borinn saman við atvinnuleysisvandann í Japan og Bandaríkjunum en þar hefur verið staðið að málum með sitt hvorum

hættinum.
    3. Síðan er um sveiflubundinn vanda að ræða þegar samdráttur verður og fólk missir vinnu sína af þeim ástæðum.
    Ég nefni þetta hérna vegna þess að ég er sannfærður um að í framtíðinni verði litið á þennan vanda meira í alþjóðlegu samhengi heldur en gert hefur verið hingað til og við munum sjá að það er nauðsynlegt að leysa atvinnuleysisvandann á alþjóðlegum grunni en ekki einungis með heimaaðgerðum. Þetta er mönnum að verða miklu ljósara en áður og dæmi um það eru einmitt umræður um skipasmíðaiðnaðinn þar sem þjóðir eru sífellt að reyna að jafna aðgerðir á milli í stað þess að taka sig saman um það að hafa skilyrðin til atvinnurekstrar með sama hætti í löndunum. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu hér.
    Á síðasta ári var atvinnuleysi hér 4,3% sem var heldur minna heldur en spáð hafði verið þegar kom fram á árið. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir 5% atvinnuleysi. Í desember á sl. ári var skráð atvinnuleysi 6,3%, hafði verið 4,7% í nóvember. Í janúar 1994 má búast við að atvinnuleysi verði 7--8%, kannski nær 8%. Þetta mikla atvinnuleysi nú í desember og janúar er árstíðabundið atvinnuleysi sem stafar af lokun fiskvinnslustöðva á landsbyggðinni. Atvinnuleysi meðal kvenna á landsbyggðinni er næstum 10% í desember, 14% á Austurlandi og þetta atvinnuleysi meðal kvenna gæti enn aukist í þessum mánuði sem nú er að líða.
    Þetta mikla atvinnuleysi nú í desember og janúar má að hluta til rekja til sjómannaverkfallsins sem hefur verið leyst. Það leiddi til uppsagna fjölda fiskvinnslufólks. Hins vegar má gera ráð fyrir að atvinnulausum fækki í lok janúar og á næstu mánuðum eftir því sem sjávarútvegurinn fer meira í gang og átaksverkefni sveitarfélaganna hefjast. En það er ljóst að átaksverkefni sveitarfélaganna í samvinnu við Atvinnuleysistryggingasjóð munu hefjast fyrr á þessu ári en á síðasta ári. Þetta eru upplýsingar sem ég hef m.a. frá Þjóðhagsstofnun en hún kannar nú atvinnuástandið og mun gefa út nýja spá í næsta mánuði og það er alls óvíst að um breytingar á spánni verði að ræða en spáin fyrir árið í ár er 5% eins og ég sagði áðan. Aðalatriðið er að flestir eru sammála um að botninum í efnahagslægðinni verði náð á þessu ári og hagvöxtur verði á því næsta. Þetta helgast ekki síst af því að ekki er gert ráð fyrir því að skera þurfi niður aflakvóta á næsta fiskveiðiári umfram það sem gert hefur verið. Einnig er búist við að fyrirtæki hér á landi geti ein sér eða í samvinnu við önnur, með samstarfi sín á milli, aukið útflutningsverðmæti sjávarafurða og annarra afurða vegna tollabreytinga á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Hv. þm. tók inn í ræðu sína og hneykslaðist á því að forsrh. væri á fundi úti í Sviss og nefndi einnig til sögunnar að hann væri hissa á því og hneykslaðist á því að félmrh. ætlaði að tala um fjölskyldumál nú þegar atvinnuleysisvandinn er eins og hann er hér á landi. Ég vil einungis segja það að forsrh. er á fundi með m.a. fjölda þjóðarleiðtoga sem fjalla m.a. um það mál sem við erum að tala um hér í dag. Það er afar mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að við lifum ekki einir í þessu heimi. Atvinnuleysisvandinn er ekki séríslenskur vandi og við höfum mikið gagn af því að ræða við forustumenn annarra þjóða. Þetta vil ég að komi hér mjög skýrt fram í þessari umræðu.
    Atvinnuleysið er heldur ekki einungis vandamál stjórnvalda, ekki einungis vandamál ríkisstjórnarinnar eins og helst var að skilja á hv. þm. Þetta er vandamál þjóðarinnar allrar og þess vegna hefur ríkisstjórnin kappkostað í sínu starfi og með sínum aðgerðum að eiga sem allra best samstarf við sem flesta aðila, ekki síst aðila vinnumarkaðarins. Þetta er það sem skiptir máli í þessu sambandi og ég vona að ég hafi með þessari ræðu minni lýst aðgerðum ríkisstjórnarinnar og lagt áherslu á það að við leysum ekki þennan vanda með upphrópunum eða ásökunum hverjir á aðra. Við leysum þennan vanda með samstilltu átaki þjóðarinnar og sem betur fer getum við sagt nú að við sjáum fram á betri tíð.