Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 11:28:55 (3544)


[11:28]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það hafa orðið ótrúleg umskipti í íslensku samfélagi á síðustu tveimur og hálfu ári. Í raun eru þessi umskipti alger. Heilu kynslóðirnar eru nú í fyrsta skipti að upplifa það að þurfa að búa við atvinnuleysi. Þetta eru þær kynslóðir sem hafa á síðustu tveimur áratugum, sem menn hafa viljað kalla framsóknaráratugina, búið við það að geta treyst því að það væri full atvinna í landinu og hafa getað gengið að atvinnu þegar þær kæmu út á vinnumarkaðinn. Þetta eru kynslóðirnar sem hafa geta búið við öryggi í menntamálum, hafa getað búið við öryggi í heilbrigðismálum. Það hefur ekki verið spurt hvort menn ættu peninga áður en þeir leituðu sér læknishjálpar. Það eru þessar kynslóðir sem hafa lifað í raun allar björtustu hliðar á íslensku samfélagi, hafa vitað að það væri gott að búa á Íslandi og hvergi betra. En í dag eftir tveggja og hálfs árs setu þessarar íhaldsstjórnar, samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl., er þetta fólk nú að upplifa það að hafa ekki atvinnu, það er að upplifa óvissuna, það er að upplifa óttann og það er að upplifa örbirgðina sem af atvinnuleysinu leiðir.
    En þetta er líka skulduga kynslóðin, kynslóðin sem er krafin þess að greiða námslánin sín að fullu, kynslóðin sem er krafin þess að greiða húsnæðislánin sín að fullu, kynslóðin sem þarf að greiða hærri skatta en nokkur önnur kynslóð sem hefur komið hér á undan, kynslóð sem hefur upplifað meiri álögur bæði í heilbrigðismálum og menntamálum en nokkur önnur kynslóð. Þetta fólk spyr auðvitað nú: Hvar eru skattalækkanirnar sem Sjálfstfl. lofaði fyrir síðustu kosningar? Hvar er 35% skattþrepið í tekjuskattinum sem

Sjálfstfl. lofaði þjóðinni á landsfundi sínum 1991? Hann lofaði að lækka skattana um 9.150 millj. En skattprósentan á einstaklingana er komin upp í 42%. Hvar eru 80 þús. kr. skattleysismörkin sem Alþfl. lofaði fólkinu fyrir kosningarnar 1991? Þau eru komin niður í 57 þús. kr. Og það er nefnilega þannig komið fyrir mörgum fjölskyldum í landinu sem bæði hafa þurft að þola kjaraskerðingu og ekki síst þeir sem enga atvinnu hafa að það er núna til fólk sem á ekki fyrir skólavörunum fyrir börnin sín, það á ekki fyrir fötum á börnin í skólann og það eru margir því miður sem ekki eiga einu sinni fyrir mat.
    Hæstv. fjmrh. kom hér eins og vænta mátti í ræðustólinn og lýsti því yfir að þetta væru auðvitað allt saman þessar erfiðu ytri aðstæður sem menn þyrftu að búa við. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það hefur bjátað hér á í ytri aðstæðum hjá okkur á síðustu árum. En það er of mikið gert úr því að rekja allan vandann til ytri aðstæðna.
    Staðreyndin er sú að ef menn líta á og bera saman þau ár sem ytri aðstæður hafa verið erfiðar, bæði árin 1983 og 1988 og horfa einvörðungu á ytri aðstæðurnar, þá er staðreyndin sú að aflinn er meiri á þessu ári en bæði 1983 og 1988. Verðið á erlendum mörkuðum, hæstv. fjmrh., er 20% hærra í dag en það var 1983. Verðbólgan var 130% 1983 en hún er 0% í dag og það var ekki þessi ríkisstjórn sem náði verðbólgunni niður, það var fyrri ríkisstjórn í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.
    Árið 1983 var því spáð að það yrðu 5.000 manns atvinnulausir ef ekkert yrði gert í upphafi árs 1984. Sú ríkisstjórn sem þá var starfandi undir forustu Framsfl. greip til aðgerða til þess að tryggja að ekki skyldi hér ríða yfir landið holskefla atvinnuleysis. Það skiptir nefnilega máli, hæstv. fjmrh., hverjir það eru sem stjórna þessu landi á hverjum tíma. Vandinn sem við búum við núna er heimatilbúinn. Og við þurfum ekki að fara lengra aftur heldur en til miðs árs 1991 þegar vextirnir voru hækkaðir, niðurskurður átti sér stað í opinberri þjónustu sem leiddi til samdráttar, skattar á einstaklinga voru hækkaðir, álögur opinberra gjalda á einstaklingana voru hækkaðar, álögur á atvinnulífið þá voru auknar þó að það hafi verið gerðar leiðréttingar nú sem leiddu til tapreksturs sem atvinnulífið hefði ekki náð sér út úr. Af þessu komu gjaldþrotin og í kjölfar gjaldþrotanna kom atvinnuleysið. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til um mitt ár 1991 voru skemmdarverk í hagstjórn og það eru þau skemmdarverk sem menn því miður búa enn við í dag.
    En afleiðingarnar af verkum ríkisstjórnarinnar eru þær að fjárfestingin er lítil. Það eru engin ný atvinnutækifæri sem skapast. Það eru minni skatttekjur, það er aukinn fjárlagahalli, það eru hærri vextir, það eru hærri skattar, það eru lakari lífskjör sem aftur leiða til minni skatttekna. Þannig hefur ríkisstjórnin í raun og veru búið til vítahring, vítahring sem hún er ekki fær um að koma þjóðinni út úr, en þennan vítahring þarf að rjúfa.
    Við framsóknarmenn höfum kynnt tillögur sem við köllum ,,Átak til endurreisnar``, tillögur í efnahags- og atvinnumálum. Þær tillögur gera ráð fyrir því að menn geti rofið þennan vítahring og komist út úr honum. En það mun taka tíma því að þau skemmdarverk sem við höfum nú þurft að þola í efnahagsstjórn munu taka langan tíma að bæta fyrir. Við segjum því hiklaust: Þessi ríkisstjórn verður að fara frá. Ríkisstjórn sem ekki hefur manndóm í sér til þess að tryggja fulla atvinnu fyrir fólkið í landinu, tryggja þau grundvallarréttindi sem einstaklingurinn á að búa við, sem er að hafa fulla atvinnu, það er ríkisstjórn sem verður að fara frá.