Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 11:37:13 (3545)


[11:37]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að þó að atvinnuleysi hér sé með því minnsta samanborið við þau lönd sem við berum okkur saman við þá er það allt of mikið og afleiðingarnar mjög alvarlegar, bæði félagslegar og fjárhagslegar, sérstaklega fyrir þær fjölskyldur sem lenda í langtímaatvinnuleysi. Ríkisstjórnin hefur brugðist við vandamálum vaxandi atvinnuleysis með ýmsum hætti.
    1. Megináherslan hefur verið á beinar atvinnuskapandi aðgerðir með verulegum fjármunum frá ríkissjóði til að flýta verkefnum á vegum ríkis og sveitarfélaga sem ætlað var að ráðast í síðar.
    2. Með því að leggja áherslu á virkar vinnumarkaðsaðgerðir til að hagnýta þann óvirka stuðning sem liggur í dagpeningagreiðslum Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    3. Með því að endurskoða það öryggis- og þjónustunet sem atvinnulaust fólk þarf að reiða sig á.
    4. Með því að efla starfsmenntun og önnur námskeið sem stuðla að aukinni hæfni og aðlögun vinnuaflsins til að takast á við breyttar aðstæður.
    5. Síðast en ekki síst með því að bæta verulega stöðu fyrirtækja og heimila með efnahagsaðgerðum sem leitt hafa til verulegrar vaxtalækkunar og nánast engrar verðbólgu.
    Í ljósi vaxandi atvinnuleysis hefur ríkisvaldið líka breytt ýmsum áherslum í atvinnumálum. Vaxandi atvinnuleysi hefur þannig gert það að verkum að ríkisstjórnin hefur hafið virkari stuðningsaðgerðir við vinnumarkaðinn en nokkru sinni fyrr. Þannig hafa um þrír milljarðar kr. verið lagðir fram af hálfu ríkisins til atvinnuskapandi verkefna umfram það sem gert var ráð fyrir í því fjárlagafrv. fyrir árið 1993 sem lagt var fyrir Alþingi haustið 1992. Þá lögðu sveitarfélögin fram 500 millj. til atvinnuskapandi verkefna á sl. ári í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Á þessu ári verður varið 1.200 millj. kr. af hálfu ríkis og sveitarfélaga til virkra vinnumarkaðsaðgerða. Nú er unnið að reglugerð sem gefin verður út næstu daga sem stuðla mun að enn virkari vinnumarkaðsaðgerðum. M.a. er þar lögð áhersla á að styrkja sérstök verkefni

sem einkum eru ætluð námsmönnum sem lokið hafa námi og komast ekki á vinnumarkaðinn vegna atvinnuástandsins. Einnig að heimilt verði að styrkja atvinnuleysi einstaklinga til að hleypa af stokkunum eigin viðskiptahugmynd með þeim hætti að þeir haldi atvinnuleysisbótum í ákveðinn tíma meðan verið er að láta á það reyna að hugmyndin sé framkvæmanleg.
    Með nýlegum breytingum á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð hefur atvinnuleysistryggingakerfið líka verið gert sveigjanlegra og víðtækara. Sérstakt átak var gert í atvinnumálum kvenna á þessu ári þar sem gerðar eru tilraunir með ýmsar vinnumarkaðsaðgerðir. En umfram þær 15 millj. sem veittar eru til atvinnusköpunar fyrir konur árlega var veitt sérstakt 60 millj. kr. framlag til atvinnusköpunar fyrir konur um allt land vegna meira atvinnuleysis meðal kvenna en karla.
    Ég tel að þær 60 millj. sem sérstaklega var veitt til atvinnumála kvenna á sl. ári hafi reynst svo vel að ríkisstjórnin hljóti að skoða það sérstaklega í þessu atvinnuleysi sem nú er að áframhald verði á þessu átaki. Fjármagni var þar einkum varið til nýsköpunar, framþróunar og markaðssetningar og nýttist fjármagnið m.a. til handiðnaðar ýmiss konar þar sem unnið var úr íslensku hráefni. Einnig var fjármagn veitt til aðhlynningarstarfa, námsaðstoðar og svokallaðra vinnuskipta þar sem fólk er í hlutavinnu á móti námi og heldur engu að síður sínum launum og rýmir þannig fyrir einstaklingum á atvinnuleysisskrá.
    Þær vinnumarkaðsaðgerðir sem hafa verið notaðar í öðrum löndum hafa einnig verið til skoðunar í ráðuneytinu með tilliti til þess hvort þær geti komið að gagni hér á landi. Flestar þessar aðgerðir eiga það sameiginlegt að vera mjög kostnaðarsamar og byggjast oft á því að verulegt atvinnuleysi hafi skotið rótum sem ekki verður leyst með atvinnuskapandi aðgerðum. Ég tel að margar þeirra eigi erindi nú þegar sem tilraunaverkefni á vegum ríkis og sveitarfélaga og Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þetta á t.d. við um aðgerðir sem stuðla að hreyfanleika vinnuafls innan lands, aðgerðir sem hvetja menn til sjálfstæðrar atvinnusköpunar, námsatvinna, deildar stöður og vinnuskipti sem ég nefndi hér áðan.
    Ég vil einnig nefna að á lokastigi er endurskoðun á lögum um vinnumiðlun sem eiga að fela í sér öflugra vinnumiðlunarkerfi með sérhæfðri ráðgjafarþjónustu. Enn fremur er í undirbúningi átak í atvinnumálum fatlaðra en tillögur þar að lútandi verða tilbúnar vonandi á næstu vikum.
    Ég vil einnig nefna að mikil þörf er fyrir starfsmenntun og hefur verið brugðist við því á ýmsan hátt en ætla má að 10 þús. manns hafi notið góðs af lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu sem Alþingi samþykkti fyrir tæpum tveimur árum síðan.
    Ég vil fara nokkrum orðum um atvinnuleysistölurnar nú og hvaða ályktanir megi af þeim draga. Atvinnulausum fjölgar í heild að meðaltali um 33% frá nóvember til desember en hefur fjölgað um 32% frá nóvember í fyrra. Undanfarin 10 ár hefur atvinnuleysi aukist um rúmlega 45% að meðaltali frá nóvember til desember. Um 9.700 manns eru skráðir atvinnulausir í lok ársins. Þessi fjöldi atvinnulausra er auðvitað óviðunandi þótt vonir standi til að þetta mikla atvinnuleysi verði ekki viðvarandi.
    Atvinnuleysi hefur aukist mikið frá því í október alls staðar á landinu. Skýringar á þessum breytingum eru í fyrsta lagi slæm aflabrögð í nóvember og mikil stöðvun fiskvinnslu og veiða seinni hluta desembermánaðar. Aðrar árstíðasveiflur í atvinnurekstri á þessum tíma vega einnig þungt auk þess sem verulega dró úr átaksverkefnum þegar líða tók á árið.
    Þær atvinnuleysistölur sem við erum að sjá núna í lok desember og væntanlega í janúar eru miklar sveiflutölur þar sem sveiflan skýrist af miklum árstíðasveiflum í íslensku atvinnulífi og verkfalli sjómanna sem getur gert um 5.000--6.000 manns í fiskvinnslu atvinnulausa um skamman tíma. Hins vegar er ljóst að vaxandi samdráttur er á mörgum sviðum atvinnulífsins sem að verulegu leyti orsakast af slæmum ytri aðstæðum eins og verðfalli á útflutningsframleiðslu og samdrætti í þorskveiðum. Þannig hefur fækkað um 6.800 ársverk hjá fyrirtækjum síðan 1988, mest í iðnaði eða um 4.200 ársverk, þar af um 1.800 í fiskiðnaði. Þá hefur fækkað um 1.400 ársverk í verslun, veitinga- og hótelrekstri.
    Í byggingarstarfsemi, sem mikið hefur verið í umræðunni, hefur hins vegar fækkað um 40 ársverk á þessu tímabili og án þess að lítið sé gert úr þeim vanda sem þar er, þá er ljóst að árstíðasveiflur í byggingariðnaði eru miklar.
    Í landbúnaði hefur fækkað á þessu tímabili um 570 ársverk, um 450 í peningastofnunum, um 315 í samgöngum og fjarskiptastarfsemi. Einungis hefur orðið aukning í ýmissi þjónustustarfsemi um samtals 200 ársverk, í fiskveiðum um 90 ársverk sem skýrist af aukinni vinnslu úti á sjó og fjölgun smábáta. Á móti þessari miklu fækkun ársverka hjá fyrirtækjum vegur aukning um 2.100 ársverk hjá hinu opinbera og um 650 í annarri starfsemi sem þýðir þegar á heildina er litið að fækkað hefur um 4.000 ársverk frá 1988--1993. Að einhverju leyti er hér um hagræðingu að ræða en ekki samdrátt þó ljóst sé að við höfum farið í gegnum mjög erfitt samdráttarskeið.
    Það sem einkum hefur breyst er að atvinnuleysið er orðið almennara og takmarkast ekki lengur við árstíðabundnar sveiflur í sjávarútvegi eða aðra tímabundna erfiðleika í þeirri grein. Þannig hefur atvinnuleysið í þéttbýli hér á höfuðborgarsvæðinu og við Eyjafjörðinn minnkað miklu minna en víðast hvar annars staðar í þeim atvinnubata sem varð fram til ágúst. Ástæða þess er að lítið hefur dregið úr samdrætti sem orðið hefur í iðnaði og verslun undanfarin ár í kjölfar aflasamdráttar og lækkunar á heimsmarkaðsverði helstu útflutningsgreina.
    Atvinnuástandið hefur nú versnað eins og atvinnuleysistölur bera með sér og munu tölur janúarmánaðar vafalaust verða um 7--8% en væntanlega mun úr atvinnuleysinu draga strax í lok þessa mánaðar. Áhrif átaksverkefna sveitarfélaga og aukinna opinberra framkvæmda fer aftur að gæta á næstunni. Þjóðhagsstofnun spáir nú að atvinnuleysi verði 5--5,5% á þessu ári þannig að atvinnuleysi fer vart undir þau mörk fyrr en í sumar. Þetta þýðir að talsvert atvinnuleysi verður viðvarandi næstu mánuði. Áhersla hins opinbera þarf að vera margþætt til þess að takast á við atvinnuleysið.
    1. Að bæta skilyrði hins almenna vinnumarkaðar og stuðla að þróun og nýsköpunar í atvinnulífinu.
    2. Að leggja áherslu á virkari atvinnuskapandi vinnumarkaðsaðgerðir hjá ríki og sveitarfélögum og aðgerðir sem einnig hvetja einkafyrirtæki til að ráða atvinnulaust fólk.
    3. Að auka aðgerðir sem styrkja félagslegar og menntunarlegar þarfir vinnuafls og vinnumarkaðar.
    4. Að sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum verði beitt sem tryggi úrræði fyrir fólk sem búið hefur við langtímaatvinnuleysi.
    Það er þýðingarmikið að veita aukið fjármagn í alla þessa þætti því þeir eru innbyrðis háðir og styðja hver annan. Stuðla þarf að því að fjármagn Atvinnuleysistryggingasjóðs nýtist sem best í virkar vinnumarkaðsaðgerðir og sem minnst í óvirkar bótagreiðslur. Viðhalda þarf hæfni og starfsorku þess vinnuafls sem um lengri eða skemmri tíma þarf að búa við atvinnuleysi.
    Þó að atvinnulausir séu eðlilega ósáttir við þær tekjur sem atvinnuleysisbótakerfið tryggir þeim og sérstaklega að þær séu í engu samræmi við fyrri tekjur áður en þeir verða atvinnulausir eins og viðgengst t.d. á Norðurlöndum þá hefur núv. kerfi það fram yfir atvinnuleysistryggingakerfi flestra annarra landa að þar eru engin tímatakmörk önnur en 70 ára aldur hve lengi fólk getur verið á atvinnuleysisbótum. Að þessu leyti eru langtímaatvinnulausir betur tryggðir en víða annars staðar. Menn eru engan veginn sammála um hvort ofangreind atriði séu kostir kerfisins eða gallar. Með auknu atvinnuleysi hefur bótatíminn víðast hvar verið styttur og önnur framfærsluaðstoð komið í staðinn. Spurningin er um hvort þörf sé á sérstöku launatengdu tryggingakerfi eins og lífeyrissjóði sem gæti bætt upp það tekjutap sem þeir verða fyrir þegar þeir eru atvinnulausir. Þessi umræða kann að verða almennari ef atvinnuleysi vex enn frekar og verður viðvarandi.
    Annað vandamál í núverandi kerfi er sá hópur fólks sem er að koma inn á vinnumarkaðinn og hefur enga möguleika, hvorki á vinnu né atvinnuleysisbótum. Um getur verið að ræða fólk sem er að koma úr námi, fæðingarorlofi, veikindum, fangelsum eða einhverju ólaunuðu starfi eins og að vera heimavinnandi. Það er ljóst að nauðsynlegt er að fylgjast grannt með vandamálum þessara hópa og tímabært að athuga rækilega hvernig við er hægt að bregðast gagnvart þessum hópum.
    Rétt er að nefna í þessu sambandi að í undirbúningi eru breytingar á lögum um vinnumiðlun sem eiga að auka þjónustu við þessa hópa sem aðra atvinnuleitendur, ekki síst langtímaatvinnulausa.
    Tvímælalaust er það svo að atvinnuástandið er verst hjá ófaglærðu fólki sem stjórnvöld verða að huga sérstaklega að hvernig við skuli bruðgist. Í nóvember sl. var ófaglært starfsfólk meira en þriðjungur atvinnulausra og hefur þeim vafalaust fjölgað verulega í desember og janúar. Þetta er hátt hlutfall þegar til þess er litið að 17% þeirra sem eru vinnandi er ófaglært fólk. Á eftir ófaglærðu fólki sem er yfir þriðjungur atvinnulausra kemur síðan verslunarfólk sem var tæp 12% atvinnulausra í nóvember sl.
    Aukningin hefur einnig orðið nokkur í langtímaatvinnuleysi en þeim sem hafa verið atvinnulausir í 52 vikur eða lengur hefur fjölgað úr 318 frá nóvember 1992 í 479 í nóvember 1993. Flestir atvinnulausra eða um 2.500 manns í nóvember sl. hafa verið atvinnulausir í 4--12 vikur og tæplega 1.300 í 13--25 vikur. Þegar litið er á aldursskiptingu atvinnuleysis er stærsti hópurinn á aldrinum 20--29 ára eða um 2.100 manns í nóvember sl. og síðan 30--39 ára eða um 1.500 manns þannig að ljóst er að atvinnuleysið hittir helst fyrir ófaglært fólk og unga fólkið. Til allra þessara staðreynda þarf að líta þegar hugað er að úrlausnum fyrir þá hópa sem við atvinnuleysi búa.
    Það er einnig ljóst að atvinnuleysi fylgir gífurlegur vandi fólks að standa við fjárhagsskuldbindingar, m.a. vegna húsnæðislána. Í október sl. gaf ég því út reglugerð sem heimilaði skuldbreytingar á lánum vegna atvinnuleysis eða langvarandi veikinda. Einnig var gert samkomulag við lánastofnanir um samstarf á þessu sviði. Húsnæðisstofnun hafa borist 280 umsóknir um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika, um 32% þeirra eru vegna atvinnuleysis og 35% vegna verulega minnkandi tekna.
    Ég vil einnig nefna að heimild í lögum um Húsnæðisstofnun hefur verið beitt sem felur í sér að fresta greiðslum hjá lántakendum Byggingarsjóðs verkamanna ef greiðslubyrði lána fer yfir tiltekið hlutfall af tekjum greiðenda. Þessari heimild hefur verið beitt með þeim hætti að vanskil, afborganir og vextir næstu eins til tveggja ára eru ekki innheimt á því tímabili. Slík ákvæði eru ekki fyrir hendi hjá Byggingarsjóði ríkisins og húsbréfadeild. Ég tel brýnt að þeirra heimilda verði aflað og mun því beita mér fyrir því þannig að þeir sem búið hafa við langvarandi atvinnuleysi eða mikinn tekjumissi og eru þar af leiðandi í miklum vanskilum í almenna lánakerfinu standi þessi úrlausn einnig til boða.
    Ég tel einnig að huga þurfi sérstaklega að lögum um greiðslujöfnun. Ákvæði eru þannig nú að mismunur launa og lánskjara eru sett á sérstakan biðreikning. Ég hef óskað eftir því við Húsnæðisstofnun ríkisins að sérstaklega verði skoðað að útvíkka lögin um greiðslujöfnun þannig að ekki verði aðeins litið til launa og lánskjara og mismunar á því heldur taki lögin meira mið af því hvernig launin hafi dregist saman og við ákveðna viðmiðun í samdrætti launa megi flytja hluta skuldarinnar á biðreikning eða greiðslujöfnunarreikning sem greiðist í lok lánstímans. Þetta er vandmeðfarið en ég tel nauðsynlegt að skoða hvort ekki megi beita slíku úrræði.
    Að lokum vil ég nefna að ég tel brýnt að hraða hér í gegnum þingið frv. sem nú liggur fyrir Alþingi um að greiða m.a. út skyldusparnað til þeirra sem búa við atvinnuleysi. Mjög er spurt um afgreiðslu þessa máls af atvinnulausum sem eiga inni skyldusparnað og vænti ég góðrar samstöðu um að hraða því máli gegnum þingið.