Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 12:49:15 (3551)


[12:49]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir að þessi umræða skuli fara fram í dag. Auðvitað hefði Alþingi átt að sjá sóma sinn í því að taka atvinnumálin og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar og ástandið almennt á vinnumarkaðinum til gagngerðrar umræðu á þingi og, eins og ég segi, þó fyrr hefði verið. En um leið og ég fagna þessari umræðu hlýt ég að lýsa því yfir að mér finnst það þyngra en tárum taki að hún skuli þurfa að fara fram í skugga þess að í dag verður á Austurvelli útifundur vegna ástandsins í atvinnumálum. Ég held að það sé tiltölulega nýtt í sögu Alþingis að það skuli þurfa verkalýðshreyfinguna til að skipuleggja sérstakar aðgerðir og sérstaka fundi til þess að mótmæla stöðunni í atvinnumálum. En svona er nú fyrir okkur komið og auðvitað stendur það upp á þessa ríkisstjórn sem nú situr og hefur tekið að sér að halda um stjórnartaumana öðrum fremur að benda á leiðir til úrbóta í þessum málum.

    Hér hafa verið nefndar tölur um atvinnuleysi og ef ég man þær rétt þá mun atvinnuleysi núna vera um 6,3% og því spáð að það fari jafnvel upp í 7--8% í janúar. Í hópi atvinnulausra eru konur enn sem fyrr fjölmennari en karlar. Fjmrh. nefndi m.a. að atvinnuleysi meðal kvenna á landsbyggðinni væri 10%. Þetta eru gífurlega háar tölur. Við erum komin upp á þennan evrópska skala, sem við svo lengi höfum reynt að forðast, í atvinnuleysistölum. Það bitnar öðrum fremur á konum og reyndar, eins og hér hefur líka komið fram, á ungu fólki. Síðustu tölur sem ég sá um atvinnuleysi hjá hópnum 16--20 ára voru 16%. 16% atvinnuleysi hjá hópi fólks á aldrinum 16--20 ára. Þetta atvinnuleysi leggst mjög þungt á þennan hóp vegna þess að stór hluti hópsins á engan rétt á atvinnuleysisbótum og stendur því á berum bökkum annaðhvort undir náð fjölskyldu kominn eða þarf að leita á náðir sveitarfélaga.
    Hér kom fram í máli málshefjanda að 15 nýjar fjölskyldur bætast við í hóp þeirra sem verða atvinnuleysinu að bráð á hverri klukkustund. 10--11.000 manns eru án atvinnu á Íslandi í dag. Þetta eru gífurlega háar tölur sem eru algjörlega óþolandi fyrir íslenskt samfélag að búa við. En tölurnar eru eitt og örlög þess fólks sem býr við atvinnuleysi er allt annað. Ég vil leyfa mér að fullyrða það að atvinnuleysi á Íslandi sé mun erfiðara að þola en á Norðurlöndunum. Bæði vegna þess að vinnumórall á Íslandi hefur verið mjög strangur og harður og hér hefur yfirleitt verið skortur á vinnandi höndum en ekki offramboð. Þetta er því algjörlega nýtt í okkar sögu. Það er engin hefð fyrir þessu. Við þurfum að fara aftur til áranna í kringum 1968 til þess að kynnast viðlíka --- ekki einu sinni viðlíka atvinnuleysi og rauninni miklu aftar eða á fjórða áratuginn til þess að slíkar tölur sjáist sem við sjáum í dag. Þannig að hefðin er ekki fyrir þessu og því er þetta miklu meiri höfnun sem fólk upplifir sem verður atvinnuleysinu að bráð. Þar að auki búum við við það kerfi í atvinnuleysistryggingum að fólk sem missir vinnu missir miklu meira í tekjum en almennt gerist í löndunum í kringum okkur. Þar heldur fólk yfirleitt ákveðnu hlutfalli af tekjum sínum en hérna sitja allir við sama borð, þ.e. fá sömu upphæð út úr atvinnuleysistryggingum og má kannski segja að í því felist ákveðið jafnræði og það sé eðlilegt út frá sjónarmiðum tryggingakerfisins að þannig sé um hnútana búið. Hins vegar þýðir það þá að tekjumissir ákveðins hóps fólks verður mjög tilfinnanlegur og tilvera fólks breytist gjörsamlega. Auðvitað hefur þetta fólk skipulagt alla sína fjárfestingu hvort sem það er í íbúðarhúsnæði, í bílum, í menntun eða öðru slíku út frá tilteknum tekjum og þegar sá grunnur brestur þá missir fólk nánast allt úr höndum sér.
    Við sjáum að tekjumissir fólks verður mjög mikill í ákveðnum hópum en við sjáum það líka að fátækt eykst mjög mikið í íslensku samfélagi. Kennarar tala um það að þeir séu farnir að sjá það aftur að illa hirt og vannærð börn komi í skólana. Nokkuð sem sást ekki hér um langt árabil. Þetta er að koma aftur inn í skólana. Það hefur líka verið sagt mikið frá því í fréttum að undanförnu að innbrot hafi aukist verulega, innbrot í íbúðarhúsnæði og innbrot í bíla og við upplifum það þingmenn að við þurfum að passa sérstaklega hlutina okkar því hér er gengið inn daglega og gerðar tilraunir til þess að ræna peningaveskjum frá þingmönnum. Auðvitað er þetta vegna þess að það þrengir verulega að. Þetta er nýtt fyrirbæri í íslensku samfélagi sem við erum að sjá hérna.
    Um leið og þrengist að í íslensku samfélagi þá er staðan verst hjá þeim sem verst eru settir og ég held ég hafi séð það í blöðunum í gær t.d. að það gekk mjög illa hjá Hjálparstofnun kirkjunnar að safna, mun verr en yfirleitt hefur gengið áður og það er bara vegna þess að það eru miklu færri sem eru aflögufærir. Ég held að það sé hlutur sem við verðum að hafa í huga og það er örvænting þess fólks sem missir allt út úr höndunum á sér. Auðvitað geta sumir borið fátækt með reisn. Við höfum mörg dæmi um það að fólk geti borið fátækt með reisn og komist sæmilega í gegnum hana, en fátækt er í eðli sínu ljót og hún verður aldrei öðruvísi. Hún skapar mörg fórnarlömb sem þarf að sinna annars staðar og hefur ómæld útgjöld í för með sér.
    Þeir sem ekki geta leitað á náðir atvinnuleysistrygginga leita jú á náðir sveitarfélaga og fá þar fjárhagsaðstoð, a.m.k. í stærstu sveitarfélögunum. Baggi þeirra hefur aukist verulega að undanförnu. Ég hef nefnt það áður og get gert það aftur að t.d. hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar þurfti að verja á sl. ári 300 millj. kr. í fjárhagsaðstoð og leita sérstaklega eftir aukafjárveitingu upp á 100 millj. kr. vegna aukins fjölda skjólstæðinga hjá Félagsmálastofnun. Þetta á auðvitað ekki bara við í Reykjavík. Þetta á t.d. við í öllum nágrannasveitarfélögunum sem hafa þurft að auka verulega framlög sín til fjárhagsaðstoðar og sú spurning vaknar auðvitað hvernig þessi sveitarfélög eigi að fara að ef svona heldur fram sem horfir. Útsvarstekjur þeirra hafa minnkað verulega en á sama tíma eykst byrðin vegna aukins atvinnuleysis. Hvernig geta þessi sveitarfélög síðan bætt sér þetta upp? Þau hafa ekki sömu meðöl til þess og ríkisvaldið hefur og ekki sömu tök á því og ríkisvaldið hefur.
    En hvað er svo gert í þessum málum? Hvaða atvinnustefna er mörkuð? Hvaða atvinnustefnu hefur verið lýst í þessari umræðu? Hver er árangurinn af þeirri umræðu sem fer fram í dag? Hvað ætla menn að gera? Ég hlýt að spyrja að því vegna þess að mér hafa fundist svörin afskaplega rýr. Ég átti reyndar von á þeim flestum. Hæstv. utanrrh. las upp í tíu liðum hver væri atvinnustefna ríkisstjórnarinnar og hann hefði svo sem getað sparað sér ómakið vegna þess að við höfum heyrt alla þessa frasa margsinnis áður. Þeir heyrðust reyndar líka hjá hæstv. fjmrh. í svarræðu hans áðan. Það eru alltaf þessir sömu frasar. Það er frasinn um stöðugleika, um lækkun vaxta, um bætta samkeppnisstöðu fyrirtækjanna, um það að skapa skilyrði fyrir fyrirtækin á markaðnum og um það að láta markaðinn vinna. Þetta er atvinnustefnan í hnotskurn sem þessi ríkisstjórn hefur og sem lýst var í 10 liðum af hæstv. utanrrh. Ég þarf ekki að fara í gegnum þá aftur.
    Það er ekki atvinnustefna sem þarna var lýst. Það er verið að lýsa því hvernig stjórnvöld ætla að láta íslenskt samfélag laga sig að alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Það fólst ekkert annað í þessu. Þetta var ekki atvinnustefna og við hljótum að lýsa eftir henni hér. Hver er atvinnustefnan? Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að taka á þeim málum sem við blasa á íslenskum vinnumarkaði? Hvernig ætla þau að vinna þannig að störf skapist? Ég held að menn hljóti að átta sig á því og viðurkenna það í hjarta sínu þó þeir segi það kannski ekki hér að það þarf öflugri og sértækari aðgerðir í atvinnumálum en stjórnvöld hafa gripið til hingað til. Ríkisvaldið verður að beita sér af miklu meiri krafti í atvinnumálum. Það hefur öll tækin til þess að beita sér í atvinnumálum. Eitt af því sem nefna má í því sambandi er t.d. áhættufjármagn, að ríkisvaldið beiti sér fyrir því að áhættufjármagn í fyrirtæki aukist verulega. Þá er ég að tala um áhættufjármagn sem byggir þá á því að hugmyndir sem fólk hefur séu metnar og ekki alltaf leitað eftir veðum í einhverjum meira og minna verðlausum fasteignum. Því við höfum séð það á undanförnum árum að það er lítil trygging í þessum fasteignum þegar til á að taka og afskriftir bankanna og fjárfestingarlánasjóðanna sýna það kannski hvað best. Það sem menn verða að fara að gera er að skapa forsendur fyrir áhættufjármagni og meta þau verkefni sem fjármagnið er látið í en ekki einungis veðin sem í boði eru.
    Það þarf líka að styrkja verulega og styðja við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum og það þarf að gerast með raunhæfum aðgerðum. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að nefna þetta eina ferðina enn af því að það höfum við auðvitað gert hér mörg hver oft og tíðum en staðreyndin er sú að nýleg úttekt sem gerð var innan OECD-landanna sýnir að meðalfjöldi starfsmanna og fyrirtækja fer lækkandi í veröldinni. Gróskan hefur verið í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þannig má nefna að á 9. áratugnum í Bandaríkjunum urðu fjórum sinnum fleiri ný atvinnutækifæri til hjá fyrirtækjum með færri en 100 starfsmenn en hjá 500 stærstu fyrirtækjunum.
    Kannanir hafa jafnframt leitt í ljós, og það hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, að 85% þessara starfa sem ég var að tala um urðu til hjá fyrirtækjum með færri en 20 starfsmenn. Ísland er samfélag smáfyrirtækjanna og við eigum að læra af þessu og við eigum að styrkja og styðja við bakið á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, t.d. líka með því að aðstoða þau við að koma upp fyrirtækjanetum.
    Þetta kunna að vera sértækar aðgerðir í anda fortíðar eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich minntist á áðan. Það skiptir ekki öllu máli, ég er sannfærð um þessar sértæku aðgerðir sem ég er m.a. að nefna hér eru nauðsynlegar. Menn hafa talað um kerfislægan vanda, að hluti af þessu atvinnuleysi sé kerfislægt og menn tíðka það gjarnan að tala um kerfislægan vanda. Það kann vel að vera að hluti af atvinnuleysinu sé kerfislægur en það þýðir þá ekki heldur að koma með kerfislausnir á þeim vanda. Það þarf þá að koma með nýjar hugmyndir og nýja hugsun inn í málin og ekki gamaldags kerfishugsun.
    Hér var minnst á skýrslu sem iðnrn. hefur látið taka saman um nýsköpun í atvinnumálum og stuðning ríkisvaldsins við það. Það vekur athygli að 11 karlmenn standa að því að semja þessa skýrslu eða komu að því með einum eða öðrum hætti, 11 karlmenn og ekki ein einasta kona. Þetta er ekki boðlegt ef menn ætla að fara að taka á atvinnumálum. Þegar atvinnuleysi meðal kvenna er t.d. mun meira en meðal karla þá er ekki boðlegt að aðeins karlmenn komi að því að taka á þeim málum. Ég fullyrði að þar er ekki, hjá stórum hluta þeirra a.m.k. og ég ætla alls ekki að alhæfa neitt um það, að finna þær nýju hugmyndir og þá nýju hugsun sem þarf til þess að takast á við þann kerfislæga vanda sem hér er á ferðinni.
    Hér hefur verið talað um að mikið sé rætt um atvinnuleysi. Það er mikið skrifað. Það liggja þverhandarþykkar skýrslur úti um alla Evrópu um atvinnuleysið og vandann í atvinnumálum. Það eru haldnar ráðstefnur og fundir daglega um þessi mál. Ég er sjálf nýkomin af einni slíkri á vegum EES þar sem var verið að tala um atvinnuleysi. Því miður verður það að segjast að menn tala nánast allir um það sama. Það skiptir ekki mál hvort það eru kratar eða íhaldsmenn eða ,,líberalar`` eða hvað þeir eru, þeir tala allir um það sama. Þeir búa til einhvern tíu liða lista eins og hæstv. utanrrh. var með hér áðan. Það eru allir með þennan sama lista ( Gripið fram í: Og bara tala.) og þessar sömu lausnir og bara tala. Það er auðvitað það sem maður er orðinn dálítið þreyttur á og maður hlýtur að spyrja sig hvort menn séu ekki á algjörum villigötum. Eru menn ekki á algjörum villigötum með þennan lista sinn?
    Hv. 9. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, sagði það hér að það þyrfti nýtt forrit í hagstjórnina og ég er alveg sammála honum um það. Það þarf nýtt forrit í hagstjórnina. Hins vegar veit ég ekkert um það hvort hv. þm. hefur það endilega upp á vasann. Ég er ekki endilega sannfærð um það.
    Á þessum EES-fundi sem ég var á var einmitt verið að tala um þennan tíu liða lista. Þar kom einn Íri og sagði: Takið bara Írland. Þetta er allt svona á Írlandi. Við erum með litla verðbólgu, við erum með lægri vexti en víðast hvar annars staðar, það hefur verið fjárfest mikið í menntun og starfsmenntun fólks á Írlandi, framleiðni hefur aukist og við höfum verið að auka útflutning okkar. Allt þetta hefur verið að gerast en við erum með 20% atvinnuleysi og það væri 30% ef það hefði ekki flust svona margt fólk frá Írlandi. Eru menn ekki á villigötum? Eru menn ekki að hugsa bara vitlausar hugsanir þessa dagana í Evrópu og líka þeir menn sem sitja hér við stjórnvölinn?
    Því miður virðist öll þessi umræða um atvinnuleysið og stöðuna í atvinnumálum opinbera svo skelfilega getuleysi hins vestræna hagkerfis til þess að taka á þessum málum og ráðleysi stjórnmálamanna. Ég ætla svo sem ekkert að undirskilja sjálfa mig frá því en stjórnmálamenn eru ráðlausir í þessum málum og það er það sem er hættulegt því það getur verið hættulegt lýðræðinu og það er alveg nauðsynlegt

að menn fari að hugsa nýjar hugsanir í þessum málum og afleggi þröngsýnina og afleggi kreddur markaðshugsunarinnar sem hér tröllríður öllu.