Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 13:18:10 (3554)


[13:18]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir miklu meira atvinnuleysi en nokkur okkar hefði trúað fyrir þrem árum síðan. Við stöndum á rústum gjaldþrota fyrirtækja og við stöndum frammi fyrir gjaldþrota heimilum. Við stöndum frammi fyrir hræðilegum mannlegum harmleik sem af atvinnuleysinu stafar, sorg, reiði, fjárhagserfiðleikum, fátækt og veikindum, bæði andlegum og líkamlegum. Við horfumst í augu við veröld sem við viljum ekki og þetta horfumst við í augu við á ári fjölskyldunnar.
    Ástæðurnar fyrir því hvernig komið er eru margar. Ástæðurnar eru samdráttur til lands og til sjávar, en ástæðurnar eru líka heimatilbúnar að stórum hluta til. Rekstrargrundvöllur flestra fyrirtækja er bágur. Vextir hafa sligað allt of skuldug fyrirtæki. Og þó svo vextir fari nokkuð lækkandi núna þá kemur það of seint vegna þess að það er erfitt að bólusetja sjúkling sem þegar er dauðvona og mörg þessi fyrirtæki sem allt of skuldsett eru koma sér ekki upp úr skuldasúpunni þótt vextir lækki í dag.
    Hvernig stendur á þessu? Sem betur fer eru ekki öll fyrirtæki alveg í rúst. Nokkur þjónustufyrirtæki standa sem betur fer sæmilega, en flestir undirstöðuatvinnuvegirnir standa hörmulega. Það þurfa allir sitt. Ríkið þarf sitt, sveitarfélögin þurfa sitt, orkufyrirtækin þurfa sitt og bankarnir þurfa sitt. Og allar þessar afskriftir sem bankarnir þurfa að standa frammi fyrir þýða að sjálfsögðu áframhaldandi háa vexti. Á þessu er ekki nokkurt lát.
    Ég sagði hér áðan að sem betur fer væru nokkur fyrirtæki sem standa vel. Það eru olíufélögin, það eru tryggingafélögin og það eru flutningafyrirtæki. Ég segi sem betur fer. Það verður því miður ekki lengi

vegna þess að hver dregur annars taum. Það er undirstaðan sem verður að ganga. Alveg sama hvað menn tala hér fagurlega um rannsóknir og vísindi. Þau munu að sjálfsögðu hjálpa okkur, en við munum bara ekki lifa svo lengi sem fjárhagslega sjálfstæð þjóð að við getum beðið eftir því. Hlutirnir eru svo alvarlegir. Og hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn brugðist við þessum mikla vanda? Hún hefur brugðist við þessum vanda með aukinni samkeppni. Samkeppni er lausnarorðið, samkeppni á öllum sviðum þjóðfélagsins. Við erum 250 þúsund manns á Íslandi. Hvernig getum við staðið í samkeppni við aðrar þjóðir? Við skulum líta á það.
    Við erum í samkeppni um skipasmíðaiðnaðinn. Norðmenn greiða niður 13%. Niðurgreiðsla til skipasmíðaiðnaðarins í Noregi er 13%. Við erum í samkeppni við það. Á Íslandi má ekki tala um niðurgreiðslur. Við skulum taka áfram dæmi. Það er verið að bjarga skipasmíðaiðnaðinum í dag. Með hverju? Ekki með niðurgreiðslum heldur með jöfnunargjöldum. Mun það bjarga þeim iðnaði? Nei, það mun ekki bjarga þeim iðnaði heldur vegna þess að lánafyrirgreiðslan er allt önnur í þessum löndum heldur en á Íslandi. Og munu þessar 70 milljónir bjarga skipasmíðaiðnaðinum sem skuldar nærri 2 milljarða? Menn eru að tala um 70 millj. til skipasmíðaiðnaðarins. Það eru sértæku aðgerðirnar fyrir skipasmíðaiðnaðinn. Það er eins og 1 / 4 úr lítilli heilsugæslustöð. Þetta er ekki einu sinni hlægilegt, þetta er sorglegt.
    Ég er áfram að tala um samkeppnina. Við heyrum það æ oftar að það sé nauðsynlegt fyrir bændur á Íslandi að fá meiri samkeppni. Landbúnaður á Íslandi muni aldrei lifa nema með aukinni samkeppni. En frammi fyrir hverju standa bændur í dag? 40--50% samdrætti og aukinni samkeppni á öllum sviðum innflutnings. En þeir þurfa samt meiri samkeppni. Það verður þannig að það verða örfáir bændur í þessu landi ef við trúum svo staðfastlega á samkeppni innflutnings, vegna þess að ef við tökum t.d. landbúnaðinn sérstaklega, þá gefur hvert eitt starf í landbúnaði 2--3 störf í þjónustu. Þessu munum við tapa. Og á hverju ætla allir að lifa allt í kringum landið, í öllum bæjum og þorpum sem lifa á þessari þjónustu við landbúnaðinn? Mér er spurn. Það er alltaf verið að tala um neytendur. Auðvitað erum við öll neytendur í þessu landi, en allir neytendur þurfa líka að hafa atvinnu.
    Nú gætu margir haldið að ég sé á móti eðlilegri samkeppni. Það er ég alls ekki. En það þarf að vera rekstrargrundvöllur á sama hátt og annars staðar til að við getum tekið þátt í þessari samkeppni. Hann er ekki til staðar.
    Ef ég tek bara vextina einu sinni enn. Eru nafnvextir í Danmörku ekki rúmlega 7% en á Íslandi 11,5%? Við erum ekki samkeppnisfær. Og ég held áfram að tala um samkeppni. Hvernig má það vera að Ríkiskaup telji sér hag í því að kaupa erlendis það sem kaupa má á Íslandi á sama tíma og sagt var frá því í sjónvarpinu í gær að 25% múrara á Íslandi væru atvinnulausir og allt að því 20% trésmiða á Reykjavíkursvæðinu? Samt sem áður telur Ríkiskaup hagkvæmt fyrir íslensku þjóðina að kaupa þetta erlendis frá og við séum ekki samkeppnisfær hvað gæði varðar á þessu sviði. Og svo segjum við: ,,Við skulum velja íslenskt.`` Við verðum að meina það sem við segjum og við verðum að hafa kjark til þess að vernda það sem við höfum. Við höfum ekki efni á öðru.
    Mér finnst oft skorta mikið á það þegar verið er að tala um atvinnufyrirtæki á Íslandi, að talað sé um það af mikilli skynsemi. Mér finnst að það gleymist oft þegar verið er að tala um fyrirtæki og það sé allt í lagi að þau fari í gjaldþrot, að það er fólk sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum. Mér finnst að það gleymist hvað hvert gjaldþrot kostar mikið, ekki bara eigendur fyrirtækjanna heldur þá sem vinna hjá fyrirtækjunum og þá sem eiga fé hjá fyrirtækjunum. Og ég trúi því ekki að það sé rétt, eins og umræðan gengur út frá, að landbúnaðarstéttin sé samansafn af einhverjum mafíósum og þeir sem vinna við sjávarútveginn séu samansafn af einhverjum sjóræningjum. Við þurfum að koma þessari umræðu á eitthvert hærra plan. En fyrst og fremst held ég að það þurfi meiri samvinnu innan greinanna sjálfra. Ég ýti ekki öllum þessum vanda yfir á ríkisstjórnina. Ég tel að það sé mikilvægt að innan landbúnaðarins sé meiri samvinna en er í dag og ég tel að það sama gildi um sjávarútveginn.
    En ég verð að segja að það er ekki mikið sem vekur bjartsýni eftir þessar umræður hér í dag. Það er ekki mikið, nánast ekki neitt. Utanrrh. fór með EES-ræðuna sína sem við kunnum öll býsna vel, um hina miklu, auknu möguleika Íslendinga á Evrópumarkaði. Ég ætla ekki að gera lítið úr því, en ég bara minni á það einu sinni enn að til að geta tekið þátt í þessari samkeppni þá þurfum við að vera samkeppnisfærir.
    Við Íslendingar eigum marga möguleika, við eigum þúsund möguleika og ég vona að við berum gæfu til að standa saman til að nálgast þessa möguleika því við getum það. Því miður hættum við þessari umræðu í dag án þess að lausnir séu uppi á borðinu. En ég vona að það líði ekki margar vikur með sömu gjaldþrotahrinu og við horfum á og við fáum að sjá bjartari daga með hækkandi sól.