Atvinnuleysið og aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn því

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 13:28:35 (3555)


[13:28]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að rekja hér frekar tölur heldur en gert hefur verið. Það er alveg ljóst öllum hugsandi mönnum sem horfa á þessi mál út fyrir veggi þessa húss að þörfin er orðin brýn á aðgerðum. Núv. ríkisstjórn hélt þegar hún komst til valda að hún þyrfti ekkert að gera til að sporna við atvinnuleysinu. Markaðurinn átti að leysa það eins og allt annað. Frjálshyggja, markaðshyggja, það er grundvallaratriði og trúarbrögð hjá hæstv. ríkisstjórn.

    Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan að það væri hægt að flokka atvinnuleysið. Það væri tæknilegt vandamál, það væri kerfisbundið vandamál og sveiflubundið vandamál. Dugar það fyrir fólkið sem er atvinnulaust að fá fram einhverjar skilgreiningar? Nei, það sem dugar eru aðgerðir, ekki þetta eilífðar tal um að búa í haginn fyrir atvinnulífið. Það hefur engu skilað í aukinni atvinnu. Jukust eitthvað störfin við það að fella niður aðstöðugjaldið? Nei, það var bara fært yfir á skattgreiðendur sem þurftu þá að bera enn þá stærri hluta af rekstri hins opinbera en áður var. Hefur það skilað einhverju að lækka tekjuskatt fyrirtækja? Vissulega ekki vegna þess að það kemur þeim fyrirtækjum sem illa standa og fólk þarf að reiða sig á að engu gagni. Þau greiða hvort eð er engan tekjuskatt. Og hafa fyrirtæki eins og Eimskip sem gengur vel fjölgað fólki vegna þess? Alls ekki. Þau keppast bara við að skrá skip sín undir þægindafána og þurfa ekki einu sinni að ráða Íslendinga til vinnu. Og hvað sagði svo ráðherrann um aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hann sagði m.a. að átaksverkefni sveitarfélaga færi í gang fyrr en áður. Það er út af fyrir sig ágætt. En hvenær kemur að átaksverkefnum ríkisstjórnarinnar? Hver eru þau? Er það aðeins vegagerð? þó hún sé svo sem góðra gjalda verð. Hvenær verður notað það fjármagn sem lofað var í fyrra að færi til hinna ýmsu verkefna ríkisins, t.d. til viðhalds bygginga, landgræðslu, nýsköpunar, rannsókna eða eitthvað annað?
    Ríkissjóður á nú samkvæmt greiðsluuppgjöri sem nýlega hefur komið fram að standa betur að vígi en fjárlög og fjáraukalög frá því í haust gerðu ráð fyrir. Og hvers vegna er það? Vegna þess að milljarðurinn sem átti að fara til atvinnuskapandi framkvæmda er enn þá óhreyfður. Hann er bara geymdur í ríkissjóði fram yfir áramót. Við getum líka sýnt betri stöðu í buddunni okkar ef við geymum það að fara til læknis, við verðum samt að gera það einhvern tímann. En við eigum kannski þá peninga í buddunni um mánaðamótin af því að við geymdum það í þessum mánuði. Ríkissjóður getur líka sýnt betri greiðslustöðu, betra sjóðsuppgjör, af því að hann notar ekki þá peninga sem hann hafði lofað til atvinnuskapandi framkvæmda fyrr en kannski ári seinna eða kannski aldrei.
    Ég held að það verði að setja fjármuni í atvinnulífið. Ríkið verður að gera það rétt eins og sveitarfélögin. Við getum litið á tölurnar sem atvinnuleysið kostar, 7--8 milljarða á ári. Nýlega höfðum við þingmenn hér á borðum okkar tölur um hvað gjaldþrot fyrirtækja kosta ríkissjóð. Það eru líka nokkrir tugir milljarða ef við tökum þó ekki væri nema valdatímabil þessarar ríkisstjórnar. Ég vil fá það fram hér á Alþingi, þó það verði kannski ekki í þessum umræðum, þá vil ég fá það fram frá hæstv. forsrh. og ríkisstjórninni hverjar eru tillögur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Verður viðhaldsverkefnum hraðað? Verður lagt fram áhættufé til stofnunar atvinnurekstrar? Verður hætt við einkavæðingu, t.d. Lyfjaverslunar ríkisins þar sem eru 60 ársverk? Og með einkavæðingu og sölu verður örugglega stefnt að fækkun starfsmanna því það er jú liður í hagræðingunni. Heldur ríkisstjórnin virkilega að atvinnuleysi minnki með tilkomu þeirra alþjóðasamninga sem við erum að gera? Hefur atvinnuleysi minnkað í Evrópu með tilkomu innri markaðarins? Nei, það heldur áfram að vaxa. Hv. 10. þm. Reykv. rakti hér áðan þá stöðu sem er á Írlandi. Stöðugleiki, lág verðbólga, búið í haginn fyrir atvinnuvegina o.s.frv., en atvinnuleysið vex samt og það mundi vera enn þá meira ef fullt af fólki hefði ekki flutt í burtu. Það er líklega svipað og þegar við Vestfirðingar ræðum stöðu atvinnulífsins á Vestfjörðum. Það er stöðugt vitnað til þess að þar sé það lægst á landinu, minnsta atvinnuleysi á landinu, besta atvinnan á Vestfjörðum segja menn. En hvers vegna? Vegna þess að þar hefur fækkunin orðið langmest í öllum landshlutum. Í öllum kjördæmum hefur fólksfækkun orðið langmest á Vestfjörðum. Og þess vegna er auðvitað minnst atvinnuleysi þar þó það verði sennilega ekki til frambúðar, því miður, vegna þess að þar horfa menn nú fram á hrun, algert hrun, á næstu mánuðum vegna þess að kvótinn er búinn og það er ekki að neinu öðru að hverfa því að fiskveiðar og fiskvinnsla eru okkar stóriðja.
    Konur hafa raunar verið að reyna að bregðast við. Stofna fyrirtæki, iðnfyrirtæki. En það sem vantar fyrir áhugasamt fólk sem vill reyna að bjarga sér er fjármagn, líka aðgangur að áhættufjármagni. Við kvennalistakonur lögðum fram hér fyrir tveimur árum tillögu um að stofna lánatryggingasjóð kvenna. Þeirri tillögu var hafnað og vísað á ráðherra bankamála að skoða það mál. Þar hefðu konur haft greiðari aðgang að lánsfjármagni en nú er, ef það hefði orðið að veruleika. Og ég vil bara spyrja: Eru mörg fyrirtæki kvenna í landinu sem hafa orðið gjaldþrota? Reyndar ekki. Ég hygg að það megi telja þau á fingrum annarrar handar. ( Gripið fram í: Karlarnir eru nú giftir.) Konur fara yfirleitt betur með fjármagn en karlar sem sýnir það oft að það eru konurnar sem halda um budduna á heimilunum, virðulegi þingmaður. Það er þess vegna enn þá meiri ástæða til að styðja þær konur sem vilja reyna fyrir sér með atvinnurekstur. En hvað skyldi ríkisstjórnin hafa gert til þess? Hún lagði 60 millj. kr. á sl. ári í atvinnuátak fyrir konur af 1.000 millj. kr. og kannski er ekki enn búið að nota þær frekar en annað af þessum milljarði. Það er ekki nóg að gert og það verður að koma með aðgerðir í þessum málum.