Lyfjalög

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 14:19:19 (3563)


[14:19]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með það að þetta mál skuli ekki koma til umræðu. Mér var fullkomlega ókunnugt um að ekki ætti að ræða þetta mál í dag. Það hefur enginn upplýst mig um það og ég vil reyndar mótmæla þessum hætti á meðferð mála að ráðherrar komi og lesi yfir fólki einhverja embættismannaræðu um frumvörp en síðan fari umræða fram mörgum dögum seinna. Ég vænti þess þá, virðulegur forseti, að hæstv. heilbr.- og trmrh. verði viðstaddur þá umræðu þegar hún kemur á dagskrá. Því það er auðvitað á engan hátt boðlegt að ráðherra hristi af sér hér ræðu og síðan tali þingmenn hver við annan um frv. Ég harma þetta því mjög. Ég tók þátt í þessari umræðu í fyrra og ætlaði svo sannarlega að gera það hér í dag. Ég vildi þá mælast til þess, frú forseti, að ég verði sett á mælendaskrá hér og nú þegar umræðan fer fram og jafnframt að hæstv. heilbrrh. verði viðstaddur þá umræðu.