Lyfjalög

78. fundur
Fimmtudaginn 27. janúar 1994, kl. 14:20:45 (3565)

[14:20]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka af öll tvímæli í þessa veru og segja það skýrt að það var ekki að minni beiðni að þessi háttur var á hafður og kann ég út af fyrir sig ekki um það að segja hvaðan sú beiðni kom þó að mig renni í grun að sú utandagskrárumræða sem fram fór í morgun að frumkvæði hv. þm., formanns Alþb., hafi kannski verið meginástæða þessa.
    Ég tek undir með henni um að auðvitað væri langeðlilegast að umræða af þessu tagi gæti verið heildstæð og ég fullvissa hana um, eins og ég raunar gat um í mínum inngangi, að ég hef ætlað mér að vera viðstaddur þessa umræðu og taka í henni þátt og bað reyndar um að hún gæti orðið tiltölulega ítarleg og efnisleg þannig að hv. Alþingi gæti komist að sem bestri niðurstöðu um frv. sem hér er til umræðu. Ég vil að það kæmi mjög skýrt fram að það er ekki að undirlagi mínu sem þessi háttur er á hafður, langt í frá.