Stjórnarfrumvarp um landbúnaðarmál

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:07:28 (3571)


[15:07]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég hef í höndum drög að yfirliti þingfunda vikunnar. Það vekur athygli mína að á þessu yfirliti er ekki gert ráð fyrir umræðum um stjfrv. um landbúnaðarmál. Það er að vísu ekki komið fram þrátt fyrir að því hafi verið lýst yfir áður að það mundi koma fram í síðustu viku svo það er kannski eðlilegt að það sé ekki tilgreint á dagskránni. En ég vil inna eftir því hvort þetta frv. sé ekki væntanlegt og verði ekki áreiðanlega rætt í þessari viku. Landbúnaðarmálin eru öll í uppnámi eins og stendur eftir dóm Hæstaréttar og er mjög brýnt að taka af öll tvímæli. Ef þetta væntanlega stjfrv. er ekki alveg í burðarliðnum eða kemur ekki til umræðu nú í vikunni þá vil ég fara fram á að þingmannafrv. sama eða svipaðs efnis sem lagt var fram í síðustu viku verði tekið til umræðu í þessari viku.