Áhrif af niðurfellingu aðstöðugjalds

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:11:33 (3575)


[15:11]
     Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Þegar skattabreytingar fyrirtækja hófust fyrir rúmu ári, m.a. með afnámi aðstöðugjaldsins, var markmiðið fyrst og fremst að bæta hag fyrirtækja og gera þau betur samkeppnishæf m.a. með tilliti til hins nýja viðskiptaumhverfis sem er og hefur verið að opnast í Evrópu. Hins vegar var á það bent og lögð á það áhersla að afnám aðstöðugjalds, sem var veltuskattur, mundi jafnframt þýða lækkað vöruverð og aðgerðin sem slík mundi því skila sér til neytenda í lækkuðu vöruverði og þar með bæta hag heimilanna í landinu. Ég reyndi að afla mér upplýsinga um þetta efni á síðustu vikunum fyrir jól en fékk ekki óyggjandi svör þar sem ég leitaði fyrir mér og því ber ég fyrirspurnina fram.
    Það virtist hægt að leiða líkum að svari en gengisbreytingin á síðasta ári flækti myndina þar sem

talið er að hún hafi ekki öll verið tekin inn í kostnað eða vöruverð. Einnig er erfitt að átta sig á hvað skrifa má á aukna samkeppni og hagstæð innkaup þegar vöruverð er skoðað.
    Fyrirspurn mín og svar við henni átti erindi í umræðuna sem fram fór fyrir jól en þá náðist ekki að fá hana á dagskrá. Mér finnst mikilvægt að fá af því glögga mynd að hvaða marki það skilaði sér til neytenda að um það bil 5 milljörðum var létt af atvinnulífinu í formi aðstöðugjalda þar með talið af versluninni. Þess vegna vona ég að sá dráttur sem orðið hefur á að fyrirspurnin kæmist á dagskrá og yrði rædd hér hafi gert það mögulegt að kanna málið betur en ella. Fyrirspurnin er þessi:
    ,,Hefur verið gerð athugun á því hvort niðurfelling aðstöðugjalds hafi skilað sér í bættum hag neytenda, svo sem í lækkuðu vöruverði?``