Áhrif af niðurfellingu aðstöðugjalds

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:17:21 (3577)



[15:17]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það mátti ráða af orðum hæstv. forsrh. að menn hafi ekki haft ítarlega athugun að baki þegar þetta svar var samið. Ég hjó þó eftir því að það kom fram í máli fyrirspyrjanda að hann taldi að létt hefði verið sköttum af atvinnulífinu upp á 5 milljarða kr. sem væntanlega er byggt á því að álagt aðstöðugjald nemi þeirri upphæð. Það er út af fyrir sig misskilningur að halda því fram að hér sé verið að létta sköttum af atvinnulífinu því það eru neytendur sem borguðu aðstöðugjaldið og aðrir ekki.
    En í svari hæstv. forsrh. kom fram að ábati neytendanna næmi 1--1,5% af vísitölu og kæmi fram í lægra verðlag og í krónutölu þýddi það um 3 milljarða kr. Það þýðir að það er verið að leggja aukna skattbyrði á neytendur sem nemur mismuninum eða 2 milljörðum kr.