Seta embættismanna í sveitarstjórnum

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:22:12 (3581)

[15:22]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Það hefur sem betur færst í aukana að menn hugi að því að ekki sé um hagsmunaárekstra að ræða í stjórnsýslunni og embættismannakerfinu og sem dæmi um það eru nýsett stjórnsýslulög. Í framhaldi af því hef ég velt fyrir mér stöðu embættismanna ríkisins gagnvart sveitarfélögum en eins og þingheimi er vafalaust kunnugt um er bæði ríkisvaldið og sveitarstjórnirnar saman hluti af framkvæmdarvaldinu. Oft er það svo að embættismenn ríkisvaldsins, sumir hverjir a.m.k., fara með málefni og eru yfirmenn sveitarstjórnarstigsins í þeim skilningi sem kveður á um í lögum hverju sinni. Má þar nefna t.d. lög um vernd barna og ungmenna og barnalög og sveitarstjórnarlög, svo ég nefni þrenn lög af handahófi þar sem m.a. er kveðið á um hlutverk sýslumanna gagnvart sveitarstjórnum.
    Ég vil því til þess að vekja upp frekari umræðu um hugsanlega stöðu embættismanna ríkisvaldsins gagnvart sveitarstjórnum varpa fram fsp. sem er á þskj. 315 í 1. tölulið:
    Hvaða reglur gilda um setu embættismanna, svo sem sýslumanna og starfsmanna ráðuneyta, í sveitarstjórnum eða nefndum á þeirra vegum?

    Ég vil geta þess varðandi sýslumenn, svo þeir séu nefndir, að í áranna rás hefur skapast sú venja hægt og sígandi sýnist mér að sýslumenn hafi ekki afskipti af sveitarstjórnarmálum. Ég minni m.a. á það að þegar núv. sýslumaður Ísfirðinga var skipaður þá sagði hann af sér öllum trúnaðarstörfum fyrir Ísafjarðarkaupstað en hann var þá forseti bæjarstjórnar og enn fremur formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Það var því hans mat að starfsins vegna væri eðlilegt að hafa það með þessum hætti.
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. forsrh.:
    Hvaða áhrif munu ný stjórnsýslulög hafa á þátttöku embættismanna í sveitarstjórnum og nefndum á þeirra vegum þegar þau lög öðluðust gildi um síðustu áramót og telur ráðherra rétt að setja sérstakar reglur þar um vegna lagasetningarinnar?