Viðhald húsa í einkaeign

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:42:36 (3589)


[15:42]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að verða við tilmælum hv. formanns iðnn. um að láta dreifa þessum upplýsingum til alþingismanna og ég mun gera ráðstafanir til þess að það verði gert.
    Í öðru lagi vil ég taka fram að það er ekki bara viðhald húsa í einkaeign sem þyrfti að vinna miklum mun meir og betur heldur en gert er hér á landi. Það á ekki síður við um húsnæði í opinberri eigu.
    Þegar ég var í heilbrrn. lét ég gera könnun á því hvað þyrfti að gera eingöngu til þess að forða því húsnæði frá skemmdum sem var í umsjá heilbrrn. Það var gerð áætlun um hvaða fjármuni þyrfti, ekki í nauðsynlegt viðhald heldur til þess að vinna viðhald til að forða frá frekari skemmdum. Það var reiknað með að til þess þyrfti að vinna verk upp á 540 millj. kr. Þannig að þarna eru mikil verk óunnin sem stendur upp á okkur, bæði opinbera aðila og einkaaðila, að finna fjármuni fyrir.