Útflutningur á íslensku vatni

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:45:16 (3591)


[15:45]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrsta spurningin lýtur að því hversu mörg fyrirtæki hafa verið stofnuð hér á landi á sl. 10 árum með það að markmiði að flytja út íslenskt drykkjarvatn. Við þessari spurningu er ekki einhlítt svar þar sem vitað er um fjölda aðila sem áhuga hafa haft á vatnsflutningi, en ekki er vitað hversu margir hafa stofnað fyrirtæki í þeim tilgangi.
    Frá því að hlutafélagaskráin var tölvuvædd árið 1987 virðast hins vegar átta hlutafélög hafa verið skrásett sem höfðu vatnsútflutning að markmiði. Af þessum átta hlutafélögum var eitt sem eingöngu hafði útflutning á bragðbættu vatni að markmiði. Þrjú fyrirtæki hafa flutt út átappað vatn á undanförnum árum, þ.e. fyrirtækin Agva, Þórsbrunnur og Íslenskt bergvatn. Mest af útfluttu vatni frá þessum fyrirtækjum hefur farið á Bandaríkjamarkað. Hollustuvernd hefur veitt þessum fyrirtækjum þjónustu á sviði rannsókna og ráðgjafar. Rannsóknastofa Hollustuverndar hefur séð um reglulegar örverumælingar á framleiðslunni í samræmi við kröfur heilbrigðisyfirvalda í Bandaríkjunum og hefur rannsóknastofan hlotið viðurkenningu frá heilbrigðisyfirvöldum þar í landi til slíkra mælinga. Eitt þessara fyrirtækja hefur nú hætt starfsemi en það fyrirtæki flutti einvörðungu út kolsýrt vatn. Af fréttum í fjölmiðlum á undanförnum árum er ljóst að ýmsir aðilar hafa haft áhuga á vatnsútflutningi án þess að úr framkvæmdum hafi orðið.
    Til þessa hefur blávatn og kolsýrt vatn í litlum mæli eingöngu eða nær eingöngu verið flutt út til

Bandaríkjanna. Tvö fyrirtæki eru starfandi á þeim markaði eins og fram kom. Eigi er kunnugt um fleiri en þau þrjú fyrirtæki sem upphaflega hófu tilraunir með vatnsútflutning á Bandaríkjamarkað, sem hafið hafa útflutning á vatni og gengið í gegnum þann hreinsunareld sem nauðsynlegur er áður en innflutningsleyfi fæst í viðkomandi ríki.
    Önnur spurning: Þurfa þeir aðilar sem ætla að hefja útflutning á neysluvatni að sækja um framkvæmdar- eða starfsleyfi? Til þessa hefur ekkert slíkt leyfi þurft frá íslenskum yfirvöldum, en á því verður breyting þegar núgildandi reglur um neysluvatn verða samræmdar EB-tilskipununum en að því er unnið hjá Hollustuvernd ríkisins. Svo framarlega sem fyrirtæki framleiða matvæli, þar á meðal drykkjarvatn, sem seld eru á Íslandi, er þeim skylt að sækja um starfsleyfi til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Með nýjum matvælalögum mun það sama gilda þótt framleiðsla sé eingöngu vegna útflutnings.
    Mismunandi reglur gilda um innflutning á drykkjarvatni. Hjá Evrópubandalaginu eru nú í gildi tvær tilskipanir, önnur um neysluvatn almennt en hin um lindarvatn. Átappað drykkjarvatn sem framleitt er í samræmi við fyrri reglugerðina þarf að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til neysluhæfs kranavatns í löndum Evrópubandalagsins. Hægt er að nota vatn beint úr dreifikerfum vatnsveitna til átöppunar svo framarlega að þau uppfylli fyrrnefndar kröfur.
    Kröfur Evrópubandalagsins um átappað lindarvatn eru mjög strangar. Þetta varðar fyrst og fremst kröfur um staðsetningu og ástand vatnsbóla og um stöðugleika á efna-, eðlis- og örverufræðilegu ástandi vatns. Gerð er krafa um að öll samsetning vatnsins eftir átöppun sé nákvæmlega sú sama og í vatnsbólinu. Aðeins er leyft að bæta koltvísýringi í vatnið og er það þá merkt í samræmi við það. Áður en Evrópubandalagið samþykkir innflutning á átöppuðu lindarvatni þurfa að liggja fyrir um það bil tveggja ára rannsóknir um stöðugleika á efna- og örverufræðilegu ástandi vatnsbólsins. Lögð er áhersla á að átöppunarverksmiðja sé sem næst vatnsbólinu og að sérstök leiðsla liggi frá vatnsbóli til átöppunarverksmiðju. Þá er gerð krafa um að heilbrigðisyfirvöld í viðkomandi útflutningslöndum ábyrgist að öllum skilyrðum sé fullnægt.
    Hollustuvernd ríkisins vinnur nú að gerð reglugerða um neysluvatn þar sem gildandi reglur verða samræmdar EB-tilskipunum. Reglur sem gilda í Bandaríkjunum um átappað vatn geta verið mismunandi eftir ríkjum. Strangar kröfur gilda um efna-, eðlis- og örverufræðilegt ástand drykkjarvatns. Í byrjun þarf að leggja fram rannsóknaniðurstöðu sem sýnir fram á að vatnið í vatnsbólunum uppfylli ofangreindar kröfur. Þetta virðist nægja í flestum tilvikum og er ekki gerð sérstök krafa um langtímarannsóknir á vatnsbólum til útflutnings á Bandaríkjamarkað. Leggja þarf hins vegar reglulega fram rannsóknaniðurstöður frá rannsóknaraðila sem viðurkenndur er af heilbrigðisyfirvöldum í Bandaríkjunum sem sýna á að framleiðslan uppfylli allar nauðsynlegar kröfur.
    Allt ókoltvísýrt vatn sem flutt er út frá Íslandi til Bandaríkjanna í dag er meðhöndlað með ósoni sem drepur allar örverur í vatninu og eykur geymsluþol. Þetta er heimilt að gera vegna útflutnings til Bandaríkjanna en verður ekki heimilt að gera vegna útflutnings til Evrópubandalagsins. Þetta er gert þrátt fyrir að örverur í íslensku vatni séu langt innan þeirra hámarksgilda sem sett hafa verið í Bandaríkjunum um örverur í átöppuðu vatni.
    Þriðja spurning: Hversu margir aðilar hafa sótt um slíkt leyfi? Eins og kemur fram í svari við fyrri spurningu er ekki um neinar leyfisveitingar að ræða.
    Fjórða spurning: Hefur ráðuneytið eða annar aðili unnið að markaðskönnun varðandi frekari möguleika á útflutningi íslensks drykkjarvatns? Iðnrn. hefur látið vinna eina könnun á markaði fyrir vatn í neytendaumbúðum og tekið þátt í annarri könnun ásamt Útflutningsráði og Byggðastofnun. Skýrslur þessar veita áhugaaðilum vissar upplýsingar um markaðsmál eins og þau voru á sínum tíma auk þess sem nokkur könnun var gerð á ýmsum möguleikum með vatnsvinnslustöðum á landinu, en lengra ná þær ekki. Ekki er vitað um markaðskannanir einstakra áhugaaðila um vatnsútflutning, enda eru þær trúnaðarmál hjá hverjum og einum. Iðnrn., Byggðastofnun og Iðnþróunarsjóður hafa veitt nokkra styrki til aðila sem hafa haft uppi áform um vatnsútflutning.