Útflutningur á íslensku vatni

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 15:54:25 (3594)


[15:54]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram hjá báðum þeim þingmönnum sem hér hafa tjáð sig. Það er ekki nóg að eiga góða vöru, menn verða líka að kunna að selja hana. E.t.v. er markaðssetning á íslenskri framleiðslu það sem einna helst skortir á til þess að við getum náð árangri á erlendum mörkuðum.
    Í þessu tilviki liggur fyrir að við erum með mjög góða afurð sem er íslenskt vatn, bæði kolsýrt og ókolsýrt. En Íslendingar virðast vera mjög seinir að átta sig á því hve markaðssetningin er þýðingarmikil. Ég er enginn sérfræðingur í markaðssetningu en ég sá nú ekki betur þegar ég fór að kanna þessi vatnsútflutningsmál í Bandaríkjunum en að sá aðili sem flutti út vatn þangað, á þennan stóra markað, og ætlaði sér ekki um of, heldur einbeitti sér að tiltölulega afmörkuðum hluta markaðarins, væri sá aðili sem hefði náð bestum árangri. Þeir sem ætla að gleypa allt tunglið í einum munnbita og ætla að fara með íslenskt vörumerki út á hinn stóra, bandaríska markað án þess að beina sér að nokkrum tilteknum hópi kaupenda eða einhverjum ákveðnum þætti í markaðnum eða einhverjum ákveðnum aðilum í hópi kaupenda, virðast springa á limminu. Þetta á við um miklu fleira heldur en vatnsútflutning. Það er ekki nóg að eiga góða afurð sem við teljum að eigi að vera seljanleg, við verðum líka að kunna að selja hana og gera okkur grein fyrir því að þar erum við í harðri samkeppni og þar kostar söluátak mikla fjármuni.