Ráðgjöf um sambúðarslit, hjónaskilnað og forsjá barna

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:03:40 (3598)


[16:03]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Af svari hæstv. dómsmrh. má því miður ráða það að gagnrýni og áhyggjur okkar kvennalistakvenna reyndust á rökum reistar. Það er í rauninni ekki um neina sómasamlega eða réttlætanlega ráðgjöf að ræða aðra en sjálfsagða lagalega ráðgjöf sem mér finnst að þurfi ekki að deila um að er lágmark, að þau atriði séu kynnt.

    Við lögðum það til, til þess að reyna að ná sátt um málið, að þessum ákvæðum frv., sem nú er orðið að lögum, yrði frestað á meðan þessum málum yrði komið í sæmilegt horf. Því það er alveg ljóst og raunar kjarni þeirrar skýrslu sem ég vitnaði hér til, frá Morten Nissen sálfræðingi í Danmörku, að því aðeins er sameiginleg forsjá góður kostur fyrir foreldra að þeir séu fyllilega meðvitaðir um það hvað er á ferðinni og fái ábyrga ráðgjöf bæði félags- og sálfræðinga um það hvaða skyldur er verið að takast á herðar með þessu fyrirkomulagi, vegna þess að þarna er um að ræða mjög flókin samskipti og flóknari samskipti heldur en ef öðru hvoru foreldrinu er úrskurðuð forsjá og gerður umgengnisréttarsamningur. Þetta er öllum ljóst og um það var í rauninni ekki deilt.
    Ein höfuðröksemd fyrir því að taka upp þennan hátt hér á Íslandi var einmitt sú að þetta hafði reynst vel í nágrannalöndum okkar. Nú er komin rökstudd gagnrýni fram um þetta fyrirkomulag þar og hafa þeir þó miklu meiri ráðgjöf, frændur okkar Danir, heldur en við getum nokkurn tíma boðið upp á. Því hlýt ég að beina þeirri ábendingu til hæstv. dómsmrh. að taka þessi mál aftur til athugunar.