Ráðgjöf um sambúðarslit, hjónaskilnað og forsjá barna

79. fundur
Mánudaginn 31. janúar 1994, kl. 16:06:12 (3599)


[16:06]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Eins og fram hefur komið þá er það lögum samkvæmt hlutverk sýslumannanna að veita leiðbeiningar og ráðgjöf að því er lagaleg atriði þessara mála varðar. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því að félagsmálanefndir sveitarfélaga standi fyrir félagslegri ráðgjöf um aðra þætti þessara mála.
    Nú dreg ég ekki úr því sem hér hefur komið fram, að í ýmsum tilvikum er vafalaust þörf á fyllri ráðgjöf til foreldra en þeirri einni sem kemur fram í lagalegum leiðbeiningum. En þetta nýmæli sem tekið var upp með barnalögunum hefur, að ég hygg, gefist vel. Það er auðvitað ekki komin á það nein fullnaðarreynsla og öllu máli skiptir vitaskuld að foreldrarnir geri sér grein fyrir því hvaða skyldur og ábyrgð felast í þessu hlutverki, enda er það ekki gert nema með samkomulagi þeirra beggja.